Hljómsveit Guðmundar Hansen (1957 / 1961)

Færeyingurinn Guðmundur Axel Hansen hafði búið og starfað hér á landi síðan 1944 og leikið á harmonikku með nokkrum hljómsveitum sem flestar ef ekki allar sérhæfðu sig í gömlu dönsunum.

Guðmundur starfrækti tvívegis hljómsveitir í eigin nafni hér á landi, reyndar lék hann um nokkurra ára skeið einnig með hljómsveit sem kallaðist JH kvintettinn og var síðari stafurinn í skammstöfuninni kennd við hann (H – Hansen) en vorið og sumarið 1957 var hann með sveit sem kallaðist einfaldlega Hljómsveit Guðmundar Hansen og lék í Breiðfirðingabúð. Engar frekari upplýsingar er að finna um þessa sveit aðrar en að sjálfur lék Guðmundur á harmonikku og er líklegt að Ole Östergaard hafi verið gítarleikari hennar. Sigurður Ólafsson söng með sveitinni þessa mánuði sem hún starfaði.

Árið 1961 var Guðmundur svo með aðra sveit sem kom fram í fáein skipti, sú sveit var tríó skipuð þeim Aage Lorange píanóleikara, Poul Bernburg trommuleikara [?] og Guðmundi. Guðmundur var um þetta leyti orðinn veikur en hann lést árið 1962.