
Hljómsveit Guðmundar Samúelssonar
Harmonikkuleikarinn Guðmundur Samúelsson var virkur í Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík bæði sem harmonikkuleikari og í félagsstörfum þess en hann starfrækti hljómsveit innan félagsins um nokkurt skeið.
Litlar upplýsingar er hins vegar að finna um þessa sveit, heimildir eru fáar og sjálfsagt hafa orðið ýmsar mannabreytingar á henni í gegnum árin. Fyrir liggur að árið 1994 þegar sveitin lék á skemmtifundi FHUR sem var tileinkaður tónlist Valdimars Auðunssonar, að í sveitinni voru Guðmundur og Reynir Jónasson sem léku á harmonikkur Pétur Urbancic kontrabassaleikari og Þorsteinn Þorsteinsson gítarleikari. Jafnframt söng Inga Backman með sveitinni.
Sveit Guðmundar átti eftir að leika við ýmis tækifæri á vegum félagsins næsta áratuginn, s.s. á skemmtifundum, þorrablótum og öðrum uppákomum innan harmonikkusamfélagsins í Templarahöllinni, Húnabúð, Glæsibæ og Breiðfirðingabúð og jafnvel úti á landsbyggðinni s.s. á harmonikkuhátíðum í Árnesi og Dalabúð í Búðardal. Þessar sveitir störfuðu allt til ársins 2006 en engar upplýsingar finnast hins vegar um skipan sveita hans.
Þá er vert að geta að Guðmundur stjórnaði einnig hljómsveitum ungmenna sem hann kenndi á harmonikku en hann lék þó ekki sjálfur með þeim sveitum þótt þær væru kenndar við hann.














































