Hinrik Bjarnason (1934-)

Hinrik Bjarnason

Hinrik Bjarnason er kunnur fyrir störf sín hjá Ríkisútvarpinu en hann starfaði þar að heita má í þrjá áratugi, Hinrik er þó ekki síður þekktur fyrir söngtexta sína en sumir þeirra eru sígildir og hafa verið sungnir kynslóð fram af kynslóð.

Hinrik Bjarnason fæddist sumarið 1934 á Stokkseyri og ólst þar upp fram að fermingu en fluttist þá til Reykjavíkur þar sem hann nam síðar kennslufræði og leiklist. Hann starfaði við kennslu allt til ársins 1966 að hann hóf störf hjá Ríkissjónvarpinu sem þá var að taka til starfa en hlutverk hans þar var að stjórna þætti fyrir börn, hann gaf þættinum nafnið Stundin okkar og hefur sá þáttur verið á dagskrá Ríkissjónvarpsins síðan þá. Hinrik starfaði reyndar ekki lengi við Sjónvarpið að svo stöddu, hann hóf að starfa fyrir Æskulýðsráð Reykjavíkur og var m.a. í forsvari fyrir Saltvíkurhátíðina frægu um hvítasunnuhelgina 1971 en hann varð síðan formaður æskulýðsráðsins allt til 1977 þegar hann hóf störf sem forstöðumaður lista- og skemmtiefnis Sjónvarpsins (dagskrárstjóri). Hann varð síðar deildarstjóri innkaupa- og markaðsdeildar sömu stofnunar og starfaði hjá henni allt þar til hann fór á eftirlaun. Hann hafði þá einnig fengist við aðra dagskrárgerð og framleiðslu og stjórn á sjónvarpsþáttum og -myndum. Hinrik hefur einnig starfað við ýmis tengd félagsmál, m.a. verið í stjórn Kvikmyndasjóðs, í stjórn Bandalags íslenskra listamanna og í stjórn Tónminjaseturs Íslands svo nokkur dæmi séu nefnd.

Á upphafsárum sínum hjá Sjónvarpinu samdi Hinrik nokkuð af textum sem fluttir voru í Stundinni okkar, af Rannveigu og Krumma sem voru vinsæll og ómissandi partur af þáttunum og þau frumfluttu m.a. textann við Ég sá mömmu kyssa jólasvein sem Hinrik samdi, sá texti kom svo fyrst út á plötu Stúlknakórs Gagnfræðiskólans á Selfossi (1968) ásamt fleiri textum sem hann samdi. Sú plata var gefin út af Hljómplötuútgáfunni sf. en Hinrik var einn af stofnendum þeirrar plötuútgáfu, Hljómplötuútgáfan gaf einnig út plötu með Rannveigu & Krumma og fyrstu smáskífu Ríó tríósins en Hinrik átti texta á þeim plötum einnig.

Hinrik Bjarnason

Hinrik hefur samið fjölda söngtexta sem flestir eða allir kannast við, áður hefur Ég sá mömmu kyssa jólasvein verið nefnt en hér má einnig nefna textana við jólalögin Jólasveinninn kemur í kvöld, Jólasveinninn minn, Snæfinnur snjókarl, Við óskum þér góðra jóla, Folaldið mitt hann Fákur, Klukknahljóm og Líður að jólum. Meðal annarra texta hans má nefna Aba daba brúðkaupsferð (m.a. með Gunna og Felix), Breki galdradreki (Fiðrildi), Úti í garði (Lúdó & Stefán) og Ég ætla að mála allan heiminn (m.a. með Kristínu Lilliendahl), svo aðeins fáeinir séu nefndir.

Árið 1994 kom út jólaplata sem bar heitið Senn koma jólin og á Hinrik átta af ellefu textum þeirrar plötu, og þegar hann fagnaði áttræðis afmæli sínu árið 2014 gaf fjölskylda hans út plötu sem bar heitið Bragsmiðurinn Hinrik Bjarnason áttræður en platan var helguð textum Hinriks og flytjendurnir nátengdir honum, þeirra á meðal er Ranakotskórinn svokallaði en Hinrik fæddist einmitt í húsinu Ranakoti á Stokkseyri.

Efni á plötum