
Hafliði Jósteinsson
Hafliði Jósteinsson var virkur í tónlistarstarfi Þingeyinga, hann starfaði með hljómsveitum, söng með kórum og kom að söngstarfi bæði eldri borgara og barna.
Hafliði var fæddur vorið 1941 og bjó mestan part ævi sinnar á Húsavík. Hann starfaði lengst af hjá Kaupfélagi Þingeyinga, m.a. um tíma sem útibússtjóri í Reykjahlíð en einnig á Húsavík og sem kirkjuvörður o.fl. Þá var hann jafnframt öflugur í hvers kyns félagsstarfi Húsvíkinga, m.a. hjá Völsungi og framsóknarflokknum auk þess sem hann vann að söngmálum með því að stjórna söngstarfi eldri borgara og einnig með sunnudagaskóla þar sem söngstarf var stór þáttur.
Hafliði söng og starfaði með fjölmörgum hljómsveitum um ævina, fyrst er hér nefndir Húsavíkur-Haukar en svo tók við hljómsveitin Víbrar eða Víbrar og Hafliði eins og hún var kölluð enda var Hafliði söngvari sveitarinnar en með þeirri sveit lék hann um sjö ára skeið á sjötta og sjöunda áratugnum og svo aftur þegar hún var endurreist síðar. Þá söng Hafliði og trommaði með Hljómsveit Jóns Illugasonar áður en hann tók sér nokkurt hlé frá hljómsveitastörfum en birtist svo aftur á níunda áratugnum og starfaði þá með sveitum eins og Fimm, Mánatríóinu og Hljómsveit Illuga, og svo síðar með Danshljómsveit Húsavíkur, dúettnum Daggardropum og dúettnum Frímanni og Hafliða.
Hafliði söng jafnframt í kórum, hann var einungis 18 ára þegar hann söng fyrst í karlakór (ekki liggur fyrir hvaða kór það var) en síðar söng hann um árabil í Kirkjukór Húsavíkurkirkju og Karlakórnum Hreimi í áratugi.
Hafliði lést sumarið 2018 en hann hafði þá átt við veikindi að stríða um tíma.














































