Afmælisbörn 25. ágúst 2024

Hulda Emilsdóttir

Í dag eru þrjú afmælisbörn á skrá hjá Glatkistunni:

Magnús Eiríksson laga- og textahöfundur, gítarleikari og söngvari er sjötíu og níu ára gamall. Magnús er einn allra helsti lagahöfundur íslenskrar tónlistarsögu, á að baki sólóferil sem og feril með hljómsveitum á borð við Mannakorn, Brunaliðið, Pónik og Blúskompaníið auk samstarfs við Kristján Kristjánsson (KK) og fleiri. Magnús hefur einnig í gegnum tíðina starfað með ótal óþekktum sveitum. Meðal laga sem Magnús hefur samið má nefna Ég er á leiðinni, Garún, Línudans, Þjóðvegurinn, Reyndu aftur, Óbyggðirnar kalla, Braggablús, Komdu í partí og Gleðibankinn en en síðast talda lagið var árið 1986 fyrsta framlag Íslands til Eurovision keppninnar. Magnús rak um árabil hljóðfæraverslunina Rín, hann hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 1999.

Jón Kjartan Ingólfsson bassaleikari er fimmtíu og átta ára gamall á þessum degi. Auk þess að hafa leikið inn á fjöldann allan af plötum hefur Jón Kjartan verið í mörgum hljómsveitum, þekktum sem óþekktum. Fiðringur, Kólga, Skytturnar, Tónabræður, Twist & bast, South River band og Stuðkompaníið eru allt hljómsveitir sem hann hefur starfað með en með síðast töldu sveitinni sigraði hann Músíktilraunir Tónabæjar árið 1987.

Og að lokum er hér nefnd söngkonan Hulda Emilsdóttir sem gerði garðinn frægan frá fimmta og fram á sjöunda áratug síðustu aldar, fyrst með söngflokknum Bláklukkum þar sem hún lék einnig á gítar en svo sem söngkona hljómsveitar Guðmundar Finnbjörnssonar og G.R. kvartettsins, auk þess sem hún söng nokkur lög inn á plötur en hún flutti svo til Bandaríkjanna þar sem hún bjó lengi. Hulda er níutíu og fjögurra ára gömul í dag.

Vissir þú að þegar Flosi Ólafsson söng lagið Það er svo geggjað að geta hneggjað var það í hlutverki Halls Sveins í hljómsveitinni Púkó.