Magnús Eiríksson (1945-)

Maggi í Rín

Nafn Magnúsar Eiríkssonar kemur jafnan upp þegar talað er um fremstu tónlistarmenn íslenskrar tónlistarsögu og ekki síst þegar það berst að laga- og textahöfundum en Magnús á líklega einhvers konar met þegar kemur að stórsmellum og sígildum popplögum, sem skipta tugum í meðförum ýmissa listamanna. Ekki liggja fyrir neinar opinberar tölur um útgefin lög og texta Magnúsar en þau eru líklega á annað eða þriðja hundrað, flest þeirra hafa komið út með hljómsveitinni Mannakorni og dúett þeirra Magnúsar og KK (Kristjáns Kristjánssonar) en athyglisvert er að aðeins ein eiginleg sólóplata hefur komið út í nafni Magnúsar.

Magnús er fæddur í Reykjavík árið 1945 og er einn margra tónlistarmanna af þeirri kynslóð sem kom upp á sjónarsviðið á tímum bítla og blómabarna, nafn Magnúsar hlaut þó ekki almenna frægð fyrr en um áratug síðar þegar hann var um þrítugt, meðal jafnaldra hans má nefna Rúnar Júlíusson, Megas, Vilhjálms Vilhjálmsson, Gunnar Þórðarson og Hörð Torfason sem allir voru orðnir þekktir tónlistarmenn nokkru fyrr.

Magnús nam einhver fræði í tónlistarskóla sem unglingur, lærði á gítar hjá Gunnari H. Jónssyni, Karli Lilliendahl og Jóni Sigurðssyni en var þó mestmegnis sjálfnema. Hann hefur t.a.m. sagt frá því að hann hafi lært mikið af því að horfa á aðra gítarleikara spila.

Hann var ungur kominn í hljómsveitir og hljómsveitaferil hans má líklega rekja allt til ársins 1961, þá lék hann með E.M. sextett en í kjölfarið komu bönd eins og Sexurnar og Skuggasveinar næstu árin, sem munu hafa verið gítarsveitir í anda The Shadows. Það var svo haustið 1964 sem Magnús gekk til liðs við bítlasveitina Pónik og þar hófst eiginlegur tónlistarferill hans, með þeirri sveit vakti hann fyrst athygli sem lagahöfundur, sveitin skartaði þá söngvaranum Einari Júlíussyni sem hafði þá sungið með Hljómum og Pónik naut fyrir vikið nokkurra vinsælda, sveitinni bauðst að fara til London og taka upp nokkur lög haustið 1966 og það var ástæðan fyrir því að Magnús hóf að semja lög og texta. Fimm lög eftir Magnús voru tekin upp í þessari törn og komu út á tveimur smáskífum, sú fyrri (fjögurra laga) kom út 1967 og þar átti Magnús tvö lög, annað þeirra (Jón á líkbörunum) hlaut þau örlög að verða bannað í Ríkisútvarpinu en slíkt var tryggt með því að rispa yfir lagið á öllum eintökum stofnunarinnar. Ráðamönnum Ríkisútvarpsins þótti augljóst að margar íslenskar sjómannsekkjur hefðu átt eiginmann að nafni Jón og því væri titill og texti lagsins með öllu óviðeigandi. Magnúsi og meðlimum sveitarinnar stóð líklega á sama og líklega hefur bannið fremur orðið til að auka söluna á plötunni. Síðari smáskífan sem hafði að geyma þrjú lög Magnúsar (og eitt að auki) kom ekki út fyrr en 1968 en í millitíðinni hafði honum verið gert að hætta í sveitinni, sagan segir að hann hafi hækkað fullmikið í magnara sínum þegar hann lék sinn hluta í Jimi Hendrix-laginu Hey Joe og strax í kjölfarið varð hann að velja um að leika sólóið eins og siðuðum mönnum sæmdi eða hætta ella. Magnús kaus þá að hætta.

Magnús Eiríksson 1969

Tónlistin var að breytast og þyngjast á þessum tíma og Magnús tók þátt í þeirri þróun, þegar blúsvakningin tók yfir var hann duglegur að tileinka sér nýja hluti en var á sama tíma kominn á bragðið með að semja tónlist, það var þó ekki á næstunni sem hann samdi fyrir sjálfan sig. Hann hafði þarna skapað sér nafn innan bransans og á næstu árum komu út lög eftir hann á plötum Kristínar Á. Ólafsdóttur, Erlu Stefánsdóttur og Póló og Bjarka en lagið með Kristínu, Komu engin skip í dag? varð nokkuð vinsælt.

Magnús hóf að leika blús með félögum sínum sem voru á svipaðri bylgjulengd og þeir tóku fljótlega upp nafnið Blúskompaníið (Blues company), sú sveit átti eftir að starfa um árabil með hléum en var um og upp úr 1970 áberandi í blússenunni í Reykjavík, sveitin varð jafnvel svo fræg að komast á safnplötuna Pop festival ´70. Um svipað leyti var Magnús einn þeirra sem stofnaði félagsskapinn Blue note, en það var áhugamannaklúbbur um blústónlist og stóð fyrir blústónleikum og öðrum tengdum uppákomum.

Magnús hefur alla tíð verið í fullri dagvinnu samhliða tónlistinni, hann hafði um tíma verið til sjós og unnið við verslun en um þetta leyti var hann farinn að vinna hjá tengdaforeldrum sínum í hljóðfæraversluninni Rín, og var jafnan kenndur við hana síðan, kallaður Maggi í Rín. Með honum í versluninni starfaði um tíma ungur gítarleikari að nafni Kristján Kristjánsson sem síðar átti eftir að starfa mikið með Magnúsi.

Á þessum árum hafði Magnús ásamt fleirum stofnað sveit sem gekk undir nafninu Uncle John‘s band og lék sú sveit nokkuð í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, Magnús hóf síðan einnig að starfa með annarri sveit sem gekk undir nafninu Lísa (Lísa í Undralandi um tíma) en þær sveitir sameinuðust síðan í Hljómsveit Pálma Gunnarssonar og varð síðan að Mannakorni.

Ekki fór mikið fyrir Magnúsi í sviðsljósinu en hann kom reyndar lítillega við sögu á plötum næstu árin, lék t.d. á gítar á smáskífu Guðbergs Auðunssonar, Trölla (1973), og á plötu Megasar – Millilendingu sem kom út 1975, þá lék hann einnig á munnhörpu í laginu Komdu og skoðaðu í kistuna mína, á smáskífu Megasar frá sama ári.

Magnús Eiríksson

Blúskompaníið starfaði áfram sem og sveitin sem þá gekk undir nafninu Lísa/Hljómsveit Pálma Gunnarssonar var fengin til að koma fram í sjónvarpsþætti þar sem upphaflega átti að flytja gömul rokklög ásamt einu frumsömdu lagi eftir Magnús (Hudson bay), í kjölfarið þróuðust mál á þann veg að mönnum leist vel á frumsamda lagið og Magnús var hvattur að semja tónlist sem síðar var farið með í Hljóðrita í Hafnarfirði sem þá var nýtekinn til starfa.

Plata kom síðan út í upphafi árs 1976 og sló í gegn svo um munaði og Magnús varð þjóðþekktur með það sama, nánast öll lögin náðu feikimiklum vinsældum og nánast hvert mannsbarn á Íslandi þekkir lög eins og Einbúinn, Kontóristinn, Komdu í partí, Ó þú, Sjómannsvísa, Róninn, Blús í G og áðurnefnt Hudson bay, öll eftir Magnús en einnig var á henni að finna gamla slagarann um Lillu Jóns. Titill plötunnar var Mannakorn en það nafn festist síðan við sveitina og hefur starfað allt til þessa dags þótt með hléum sé, þeir Magnús og Pálmi hafa verið fastir meðlimir sveitarinnar en aðrir hafa komið og farið. Ekki aðeins lögin vöktu athygli heldur einnig textar Magnúsar sem þykja margir vel ortir en platan fékk góðar viðtökur hlustenda. Þess má geta að Vilhjálmur Vilhjálmsson söng fjögur laganna á plötunni en hann hafði þá ekki sungið inn á plötu í fjölmörg ár, þetta varð til að hann kom aftur fram á sjónarsviðið og gaf út plötu sem hafði m.a. að geyma lag eftir Magnús.

Mannakornsplatan var Magnúsi mikil hvatning til frekari afreka sem lagahöfundur og hann hófst þegar handa við að semja lög á nýja plötu, sveitin lék sáralítið á dansleikjum um sumarið en um þetta leyti lék hann einnig eitthvað með Jazzhljómsveit Guðmundar Ingólfssonar. Magnús sinnti þá öðrum tónlistarverkefnum samhliða þessu, átti t.d. eitt lag á vísnaplötunni Út um græna grundu og lék á munnhörpu á plötu Deildarbungubræðra svo dæmi séu nefnd.

Þeir félagar í Mannakorni (sem nú hafði opinberlega hlotið það nafn) fóru aftur í hljóðver með nýja efnið og það kom út haustið 1977 á plötunni Í gegnum tíðina. Á þeirri plötu átti Magnús öll lög og alla texta nema einn og það fór á sama veg og með fyrri plötuna, flest laganna slógu rækilega í gegn og festu hann nú í sessi sem fremsta lagahöfund þjóðarinnar ásamt Gunnari Þórðarsyni sem einnig var á þessum tíma öflugur í tónlistinni. Garún, Reyndu aftur, Ræfilskvæði, Sölvi Helgason, Braggablús, Göngum yfir brúna, Gamli góði vinur og Ef þú ert mér hjá þekkja allir en öll þessi lög skipa sér í flokk sem sígild íslensk popplög. Með þessum tveim plötum hafði Magnús ungað út sextán stórsmellum á einu og hálfu ári og finnast þess viðlíka dæmi vart annars staðar.

Magnús Eiríksson

Magnús, orðinn stórstjarna í íslensku tónlistarlífi fékk nú boð ásamt Pálma Gunnarssyni um að ganga til liðs við súpergrúppu sem verið var að setja á fót í vorið 1978, þetta var hljómsveitin Brunaliðið sem var skipuð ýmsum þekktum poppurum og var gagngert  sett saman í þeim tilgangi að gefa út plötuna Úr öskunni í eldinn og herja á sveitaballamarkaðinn um sumarið. Hlutirnir gerðust hratt og aðalsmellur plötunnar varð Ég er á leiðinni, sem Magnús samdi einmitt en hann samdi tvö önnur lög á plötunni. Lagið varð líkast til vinsælasta popplag Íslandssögunnar og annað eins hefur ekki sést hér á landi hvorki fyrr né síðar, það var leikið daglega margsinnis á einu útvarpsstöð landsins og sveitin þurfti að leika það miklu oftar á dansleikjum sínum heldur en þeir hefðu sjálfir viljað. Um þetta leyti var sukklíferni sem fylgdi poppbransanum gjarnan á þessum árum farið að setja svolítið mark sitt á Magnús og svo fór að eiginkonan setti honum stólinn fyrir dyrnar eftir að tveir sólarhringar höfðu alveg dottið út hjá honum, Magnús sagði reyndar sjálfur í viðtali síðar að hann hefði þó verið sem hálfgerður byrjandi í sukki við hlið spilafélaga sinna í Brunaliðinu. Svo fór að Magnús hætti í sveitinni og tók sig á til að bjarga hjónabandinu.

Magnús og félagar hans í Mannakorni unnu að þriðju plötu sinni, Brottför kl. 8 og hún kom út 1979, að þessu sinni samdi hann öll lög og texta á plötinni. Platan naut vinsælda þótt ekki væru jafn margir stórsmellir á henni og fyrri plötunum tveimur, lögin Gamli skólinn, Aldrei of seint, Ferjumaðurinn og Einhvers staðar einhvern tímann aftur hafa þó fyrir löngu orðið sígild og styrkt stöðu Magnúsar sem lagahöfundar, síðast nefnda lagið kom söngkonunni Ellen Kristjánsdóttur á kortið.

Árið 1980 sendi Pálmi Gunnarsson frá sér sólóplötuna Hvers vegna varst‘ekki kyrr? og þar átti Magnús eitt lag, Vegurinn heim, enn einn slagarann sem allir þekkja. Um líkt leyti kom út smáskífa með tónlist úr kvikmyndinni Óðal feðranna með stórsmellinum Sönn ást, samið af Magnúsi en flutt af Björgvini Halldórssyni. Og Magnús hélt áfram að semja lög fyrir aðra tónlistarmenn, hann átti t.d. lag á tveggja laga plötu Ellenar Kristjánsdóttur, plötum Pálma Gunnarssonar og Brimklóar en á plötu þeirrar sveitar var að finna lögin Upp í sveit og Þjóðvegurinn, sem flestir þekkja. Þá samdi Magnús þrjú lög fyrir kvikmyndina Okkar á milli í hita og þunga dagsins, þ.m.t. smellinn Draumaprinsinn sem Ragnhildur Gísladóttir gerði skil og var síðan kjörið lag ársins á Stjörnumessu við ársuppgjör um leið og Magnús var kjörinn lagahöfundur ársins.

Fyrir jólin 1982 sendi Magnús síðan frá sér sína fyrstu og reyndar einu sólóplötu hingað til, hún fékk titilinn Smámyndir og kom út hjá Fálkanum, rétt eins og Mannakornsplöturnar höfðu gert. Platan fékk ágæta dóma í Tímanum, Helgarpóstinum og Þjóðviljanum en slakari í Morgunblaðinu. Efni Smámynda var nokkuð poppaðra en Mannakornsplöturnar höfðu upp á að bjóða og líklega má telja hana fyrstu eitísplötuna hér á landi en hljóðgervlar voru nokkuð áberandi á þessi sólóplötu gítarleikarans, það er töluvert áberandi í helstu smelli plötunnar, Þorparanum sem Pálmi Gunnarsson syngur en lagið Hvað um mig og þig? í flutningi Ragnhildar Gísladóttur naut einnig vinsælda, reyndar eins og Vals nr. 1 sem var þekktara sem Hildar-lagið en það var einkennislag dönskukennsluþátta sem Ríkissjónvarpið hafði látið gera um það leyti en Magnús hafði samið tónlistina í þáttunum. Smámyndir hafði verið tekin upp í Hljóðrita og fékk hún nokkurð góða dóma í DV, Þjóðviljanum og Tímanum og þokkalega í Helgarpóstinum, Morgunblaðinu og Poppbók Jens Guðmundssonar. Þegar Smámyndir var endurútgefin á geislaplötuformi árið 2012 fylgdu með lögin þrjú sem Magnús hafði samið fyrir Okkar á milli en þau höfðu þá aðeins komið út á plötunni með tónlistinni úr myndinni.

Magnús með gítar

Næstu þrjú árin voru nýjar lagasmíðar eftir Magnús lítið áberandi enda sendi hvorki hann né Mannakorn frá sér plötu, Mannakorn starfaði þó eitthvað sem og Blúskompaníið, haustið 1983 var gefin út bók með nótum tólf laga eftir Magnús.

Það var síðan sumarið 1985 sem næst kvað eitthvað að Magnúsi en þá sendu Mannakorn frá sér plötuna Í ljúfum leik, það var fyrsta plata sveitarinnar í sex ár. Magnús samdi allt efni plötunnar, bæði lög og texta og tvö þeirra náðu miklum vinsældum, Á rauðu ljósi og Það er komið sumar en síðarnefnda lagið heyrist stöku sinnum enn spilað þegar veður leikur við íbúa landsins. Um haustið sendi Pálmi síðan frá sér jólaplötuna Friðarjól þar sem heyra má lag Magnúsar, Gleði og friðarjól – enn einn smellinn.

Magnús hafði sem persóna nokkur dregið sig í hlé eftir útgáfu sólóplötunnar en honum skaut heldur betur upp á sjónarsviðið á fyrri hlut ársins 1986 þegar Íslendingar tóku í fyrsta sinn þátt í Eurovison söngvakeppninni, þá var haldin undankeppni sem um þrjú hundruð lög kepptu um að komast í lokakeppnina en lag Magnúsar, Gleðibankinn sigraði þá keppni sem frægt er orðið, lagið hafði verið eitt þeirra sem komið hafði til greina að hafa á Mannakornsplötunni Í ljúfum leik. Magnús stóð reyndar í heilmiklu stappi vegna sigurlagsins því völdin voru í raun tekin af honum sem höfundi lagsins og hann hafði ekkert um það að segja hvernig lagið var útsett eða hverjir fluttu það í Noregi þar sem keppnin var haldin. Magnús hefur aldrei farið í grafgötur með að hann var ósáttur við þann „diskóbúning“ sem lagið fékk, og að ákveðið var að honum forspurðum að Helga Möller og Eiríkur Hauksson myndu flytja lagið með Pálma Gunnarssyni, sem hann stóð í meiningu um að mynda flytja lagið einn. Magnús var því hvergi nærri þegar lagið var endurútsett og -tekið upp fyrir endanlega útgáfu tríósins sem gekk undir nafninu Icy-hópurinn, en hann fór þó utan með íslenska hópnum eftir að málin voru settluð. Sextánda sætið varð hlutskipti lagsins í keppninni eins og kunnugt er.

Magnús tekur við verðlaunum fyrir Gleðibankann

Þetta sama sumar sendi hljómsveitin Faraldur frá sér plötu sem m.a. hafði að geyma tvö lög Magnúsar en í ágústmánuði fagnaði Reykjavíkur borg tvö hundruð ára afmæli með veglegri hátíð, þar sem m.a. var boðið upp á stórtónleika við Arnarhól þar sem Bubbi Morthens flutti Braggablús Magnúsar í nýstárlegri útgáfu en lagið hafði einnig komið út á tvöfaldri plötu sem hafði að geyma Reykjavíkurlög frá ýmsum tímum. Fyrir jólin 1986 sendi Spaugstofan frá sér sína fyrstu og einu plötu, Sama og þegið, og á þeirri plötu hafði Gleðibankinn verið settur í grínútgáfu undir nafninu Hjálpartækjabankinn. Um svipað leyti sendi Sinfóníuhljómsveit Íslands frá sér plötu með popplögum í sinfónískum útsetningum og meðal annarra laga mátti þar heyra Ég er á leiðinni og fyrrnefndan Gleðibanka.

Þrátt fyrir ósættið við Ríkisútvarpið í tengslum við Eurovision-keppnina árið áður var Magnús í dómnefnd undankeppninnar hér heima árið 1987. Hljómsveitin Foringjarnir gaf út smáskífu um sumarið sem innihélt gamla slagarann Komdu í partí og naut það nokkurra vinsælda, um líkt leyti kom út safnplata með lögum Jóns Múla Árnasonar þar sem Magnús söng lagið Einu sinni á ágústkvöldi, þetta var í fyrsta sinn sem hann söng lag eftir annan höfund á plötu en hann hafði sjálfur sungið á eigin afurðum.

Þetta sama ár kom einnig út safnplata með tuttugu lögum eftir Magnús sem höfðu komið út á árunum 1975-86, platan bar titilinn 20 bestu lögin og kom út á vegum Fálkans og var síðan endurútgefin sem geisladiskur árið 1994 (af Spor).

Árið 1988 var sett á svið í Súlnasal Hótel Sögu söngskemmtun með lögum Magnúsar Eiríkssonar undir nafninu Næturgalinn. Hljómsveitin sem lék undir í þeirri skemmtun gekk undir nafninu Bræðrabandalagið en var í raun Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, sú sveit kom við sögu á næstu Mannakornsplötu sem hlaut einmitt nafnið Bræðrabandalagið og kom út um sumarið. Sem fyrr slógu nokkur laganna á plötunni í gegn og má þar nefna lög eins og Víman, Ekki dauðir enn, Lifði og dó í Reykjavík og Ég elska þig enn. Á þessum tímapunkti var Magnús í raun að koma sjálfur aftur fram á sjónarsviðið eftir að hafa fengið „poppeitrun“ eftir Gleðibanka-ævintýrið, eins og hann orðaði það sjálfur.

Þess má geta að sumarið 1988 sigraði Arnar Freyr Gunnarsson Látúnsbarkakeppni Stuðmanna sem haldin var þá í annað skiptið, og hann söng þar lagið Reyndu aftur eftir Magnús – sem var vel við hæfi því Arnar hafði lent í öðru sæti keppninnar árið áður.

Í ársbyrjun 1989 var Magnús einn þeirra fimm lagahöfunda sem fengnir voru til að semja lög fyrir undankeppni Eurovision. Framlag Magnúsar var lagið Línudans sem Ellen Kristjánsdóttir söng en það kom síðan út á safnplötunni Bjartar nætur um sumarið, það hafnaði í öðru til þriðja sæti undankeppninnar.

Maggi Eiríks

Magnús birtist nú æ oftar á sviði og kom t.a.m. fram með blússveitinni Vinum Dóra auk annarra blúsara en einnig komu þeir Pálmi Gunnarsson stundum fram tveir saman, jafnvel undir Mannakorns-nafninu. Mannakorn vann þá einmitt að nýrri plötu sem kom út haustið 1990 og bar nafnið Samferða. Samnefnt lag var nokkuð vinsælt sem og lögin Óralangt í burtu og Haltu mér fast en síðast talda lagið var sungið af Bubba Morthens. Fyrr þetta sama ár hafði verið sett saman sýning á Egilsstöðum helguð Magnúsi og tók hann sjálfur þátt í einni sýningunni fyrir austan.

Næstu árin þar á eftir var Magnús lítið áberandi í sviðsljósinu en um þetta leyti fóru þeir Kristján Kristjánsson (KK) að endurnýja kynni sín eftir að hafa starfað saman í Rín á áttunda áratugnum en Kristján hafði verið erlendis um árabil, þeir virðast þó lítið sem ekkert hafa komið fram en árið 1994 vaknaði Mannakorn enn og aftur til lífsins og átti þá tvö gömul lög í nýjum útgáfum á safnplötunni Já takk, í beinu framhaldi sendi sveitin frá plötuna Spilaðu lagið: 20 ára afmælisútgáfa en hún hafði að geyma tuttugu eldri lög með sveitinni í einföldum blúsútsetningum. Um þetta leyti var Magnús alveg hættur að leika á dansleikjum en tónleikahald kom þess í stað. Þess má geta að hann kom við sögu sem munnhörpuleikari á plötu Tómasar Hermannssonar og Ingunnar Gylfadóttur en Tómas átti síðar eftir að skrásetja ævisögu Magnúsar.

Árið 1996 birtust þeir Magnús og Kristján (KK) og opinberuðu samstarf sitt með plötunni Ómissandi fólk, KK hafði þá á fáeinum árum sent frá sér fjórar vinsælar plötur frá árinu 1991 eftir að hann flutti heim til Íslands en tvíeykið sló í gegn með plötu sinni. Lög eins og titillagið og Óbyggðirnar kalla voru spiluð og sungin um land allt og ljóst þótti að þeir myndu starfa saman áfram. Ári síðar var söngskemmtunin Braggablús: söngbók Magnúsar Eiríkssonar sett á svið á Hótel Íslandi við miklar vinsældir og þá um haustið (1997) kom út safnplatan Ómissandi lög, tuttugu vinsæl lög Magnúsar frá ýmsum tímum en lagið Ég er á leiðinni var jafnframt í nýrri útgáfu á plötunni.

Næstu misserin störfuðu bæði Mannakorn og KK & Magnús og héldu reglulega tónleika, snemma árs 1999 hlaut Magnús fyrstu alvöru viðurkenningu sína fyrir tónlistarframlag sitt þegar hann hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna. Um vorið missti hann eiginkonu sína til rúmlega tuttugu fimm ára, og vann m.a. úr sorginni með spilamennsku en þeir KK léku mikið á tónleikum það sem eftir var ársins, m.a. á tónleikaröð undir yfirskriftinni Óbyggðirnar kalla. Fyrir jólin 1999 gáfu þeir félagar úr sína aðra plötu saman, Kóngur einn dag, titillagið naut þar mestra vinsælda.

Vorið 2000 héldu þeir KK og Magnús tónleika í Salnum í Kópavogi en tónleikasalurinn hafði þá nýverið verið tekinn í notkun, þeir höfðu aukamenn með sér að þessu sinni og voru tónleikarnir hljóðritaðir með útgáfu í huga. Þeir voru síðan gefnir út um sumarið undir titlinum Lifað og leikið. Þeir félagar voru meðal tónlistarmanna sem komu við sögu á plötu sem gefin var út til heiðurs kvikmyndinni Með allt á hreinu, þar fluttu þeir lagið Reykingar. Síðar þetta sama ár var leikgerð af Bangsímon sett á svið í Loftkastalanum og var Magnús fenginn til að semja tónlist við leikgerðina, það var í fyrsta sinn sem hann samdi tónlist fyrir leikhús.

Magnús árið 2000

KK og Magnús störfuðu saman áfram næstu árin, og árið 2001 fóru þeir af stað með tónleikaröð á Hótel Borg ásamt bassaleikaranum Þorleifi Guðjónssyni, jafnfram var Mannakorn enn á ný endurvakin og hélt nokkra tónleika. Þá kom út tvöföld ferilssafnplata með lögum Magnúsar um haustið, hún bar heitið Braggablús og höfðu lögin verið endurhljóðunnin. Þetta sama ár sendi Mannakorn ennfremur frá sér plötuna 25 ára afmælistónleikar í Salnum 21. september 2001, en titillinn vísar augljóslega til tónleika sem sveitin hélt um haustið í Salnum í Kópavogi.

Árið 2002 áttu þeir KK og Magnús lagið Lukku Láki á heiðursplötu Hallbjarnar Hjartarsonar, Kúrekanum en 2003 kom út fyrsta platan í tríólógíu sem þeir félagar sendu frá sér með rútubílasöngvum eins og það var kallað, einfaldar og látlausar útsetningar á gömlum lögum sem Íslendingar hafa sungið í rútum, útilegum og víðar í gegnum tíðina. Þessi fyrsta plata hét 22 ferðalög og kom út á vegum Zonet-útgáfunnar, hún seldist strax gríðarlega vel og þeir KK og Magnús fylgdu henni eftir með tónleikaröð um land allt. Önnur platan í röðinni, Fleiri ferðalög kom út 2005 og seldist einnig vel þótt ekki væri það í líkingu við fyrstu plötuna og sú þriðja, Langferðalög kom út sumarið 2007 en hún var að hluta til tekin upp í Kína en þangað fór tvíeykið á vegum Zonet, til tónleikahalds.

Magnús var gerður að fyrsta heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur í tengslum við Blúshátíð í Reykjavík 2004 og var Blúskompaníið virkjað um svipað leyti, Mannakorn sendi þá einnig frá sér plötuna Betra en best en hún vakti minni athygli en flestar plötur sveitarinnar fram að þessu.

Annað tónlistarfólk kunni greinilega vel að meta tónlist Magnúsar því haustið 2005 sendi Helgi Björnsson frá sér plötuna Yfir Esjuna þar sem hann flutti nokkur af lögum hans, sama ár gerði stúlknasveitin Nylon endurgerð af laginu Einhvers staðar einhvern tímann aftur við nokkrar vinsældir.

2006 fékk þjóðhátíðarnefnd Vestmannaeyinga Magnús til að semja þjóðhátíðarlag, Ástfangin í þér en það var flutt af Hrund Ósk Árnadóttur sem átti reyndar eftir að starfa nokkuð með Magnúsi í framhaldinu. Enn ein platan, tekin upp í Salnum kom út um haustið 2006, tónleikaplata Mannakorns, Ekki dauðir enn, en hún hafði verið tekin upp á tónleikum í tilefni af þrjátíu ára afmæli sveitarinnar. Mannakorn var afkastamikil um það leyti en hún sendi einnig frá sér jólaplötuna Jól með Mannakornum: sígildar jólaperlur. Reyndar var Magnús mjög virkur á þessum tíma því Mannakorn, KK og Magnús og Blúkompaníið voru öll starfandi. Magnús kom þá við sögu á plötunni Pældu í því sem pælandi er í, til heiðurs Megasi en þar söng hann og lék lagið Gamli sorrí Gráni.

Árið 2008 var Magnús einn þeirra lagahöfunda sem voru hálfgildings ginntir til að taka þátt í undankeppni Eurovision en þeir höfðu þá samið lög fyrir Ríkissjónvarpið sem þeir stóðu í þeirri meiningu að væru fyrir skemmtiþáttinn Laugardagslögin, Magnús sigraði reyndar ekki en var ekki að fullu sáttur við uppátækið fremur en aðrir lagahöfundar sem stóðu í sömu sporum.

Magnús og Kristján Kristjánsson (KK)

Árið 2009 var Magnús áberandi en þá kom út ævisagan Reyndu aftur en hún var skrásett af fyrrnefndum Tómasi Hermannssyni og vakti mikla athygli, m.a. fyrir krassandi bransasögur. Um líkt leyti sendi hljómsveitin Buff frá sér plötu sem þeir kölluðu einnig Reyndu aftur en hún var tileinkuð Magnúsi.

Sem fyrr voru KK og Magnús starfandi sem og Mannakorn en Mannakorn sendi frá sér þrjár plötur á næstu árum, Von (2009), Í blómabrekkunni (2012) og Í núinu (2014), auk tvöföldu safnplötunnar Gamli góði vinur (2010), og KK og Magnús enn eina plötuna einnig, Úti á sjó (2013). Einnig hafa komið út endurútgáfur á plötum dúettsins, s.s. þreföldu plöturnar Þrefaldur (sem innihélt Ómissandi fólk, Kóngur einn dag og Lifað og leikið) árið 2011, og 66 ferðalög: Textar og gítargrip, sem innihélt ferðalagaplöturnar þrjár (2008), þá er enn ónefnd safnplatan 30 vinsælustu ferðalögin (2016). Þar fyrir utan hafa lög Magnúsar í flutningi hans sjálfs, Mannakorns, Brunaliðsins, KK og Magnúsar og fleiri komið út á hundruðum safnplatna.

Magnús söng einnig á plötu Skuggasveina, hljómsveitar sem sérhæfði sig í lögum Tony Joe White, og kom við sögu á plötu kántrísveitarinnar Klaufa, þeir fóstbræður KK og Magnús sungu auk þess á plötu Bo og hjartagosanna.

Þeir Friðrik Ómar og Jógvan Hansen sendu frá sér plötuna Vinalög (2009) þar sem finna mátti lagið Ég er á leiðinni á færeysku (Eg eri enn a veg), og fleiri hafa sungið lög Magnúsar á plötum í seinni tíð s.s. Elín Ey & Pétur Ben, Valgerður Guðnadóttir o.fl.. Þá eru ónefndir þeir tónlistarmenn, hljómsveitir og kórar sem hafa flutt tónlist hans á tónleikavettvangi s.s. Hinsegin kórinn, Léttsveit Reykjavíkur, karlakórinn Jökull, Sunna Gunnlaugs o.m.fl.

Þegar Magnús varð sjötugur síðsumars 2015 var blásið í lúðra og haldið upp á afmæli hans með stórtónleikum í Eldborg í Hörpunni. Hann kom þar sjálfur á svið og lék m.a. með þremur sonum sínum, sem allir hafa verið viðloðandi tónlist – þ.e. Stefán Már gítarleikari, Magnús trommuleikari og Andri bassaleikari. Í tilefni af afmælinu sendi Sena einnig frá sér þreföldu safnplötuna Tíminn líður hratt, með úrvali af lögum Magnúsar. Um það leyti dró hann sig út úr Rín og hefur reyndar lítið komið að opinberu tónleikahaldi síðan.

Magnús Eiríksson er ein af kanónum íslenskrar tónlistarsögu, flestir kunna að meta lög hans og allir þekkja þekktustu lög hans. Það er því ótrúlegt að aðeins hafi komið út ein plata í hans nafni, auðvitað má þó segja að Mannakorns-plöturnar séu á vissan hans sólóverkefni hans þar sem hann hefur samið nánast allt efni á þeim en plöturnar með KK eru meira samstarfsverkefni.

Magnús hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ævistarf sitt, hann hefur t.a.m. hlotið fálkaorðuna fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, heiðurverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, auk fjölmargra verðlauna og tilnefninga fyrir einstök verk. Hann hefur aukinheldur sinnt ýmis konar félagsstarfi fyrir tónlistarmenn, var í forsvari fyrir blúsklúbb, formaður FTT (þá FA) og STEF um tíma.

Efni á plötum