Magnús Guðmundsson (1925-91)

Magnús Guðmundsson

Magnús Guðmundsson frá Hvítárbakka í Borgarfirði var líklega þekktastur fyrir annað en tónlist en eftir hann liggur ein hljómplata þar sem hann syngur Gluntasöngva ásamt Ásgeiri Hallssyni.

Magnús fæddist 1925, nam við héraðsskólann í Reykholti og síðar við Verzlunarskóla Íslands en starfaði eftir stúdentspróf fyrir SÍS, Flugfélag Íslands og Íslenska aðalverktaka í Danmörku og Bandaríkjunum áður en hann sneri heim til Íslands 1957 og stofnaði fljótlega eftir það fyrirtækið Ísól við annan mann, sem hann stýrði og starfaði við til dauðadags.

Magnús var músíkalskur, lék á píanó og söng baritónrödd bæði með Kátum félögum og síðan karlakórnum Fóstbræðrum um árabil, hann söng stundum einsöng með kórnum. Hann var jafnframt einn Fjórtán fóstbræðra sem gerðu garðinn frægan á nokkrum hljómplötum á vegum Svavars Gests, og var reyndar framarlega í félagsstarfi Fóstbræðra – var í stjórn kórsins og einn þeirra sem gengust hvað harðast í að koma á fót félagsheimili Fóstbræðra, og var hann sæmdur heiðursmerki kórsins fyrir þau störf og önnur innan kórastarfsins.

Árið 1974 sendu þeir Magnús og Ásgeir Hallsson (bróðir Kristins Hallssonar) frá sér plötuna Gluntasöngvar en Fálkinn gaf hana út. Gluntasöngvar komu frá Svíþjóð en Gunnar Wennerberg (1817-1901) var höfundur laga og texta (sem Egill Bjarnason þýddi úr sænsku), þetta voru eins konar stúdentasöngvar sem voru byggðir upp sem samtals tveggja stúdenta við Uppsalaháskóla, annar var nýliði en hinn magister sem leggur þeim yngri lífsreglurnar. Textinn er samtal stúdentanna tveggja og er efnið sótt í nánasta umhverfi þeirra. Alls voru á plötunni þrettán lög en Carl Billich lagði þeim félögum lið sem píanóleikari.

Magnús söng inn á nokkrar plötur á vegum Fóstbræðra og Fjórtán fóstbræðra en einnig kom hann við sögu á plötu sonar síns, Jakobs Frímanns Magnússonar, Horft í roðann (1976) þar sem þeir feðgarnir sungu lagið Röndótta mær.

Magnús lést síðsumars 1991, sextíu og sex ára að aldri.

Efni á plötum