Hljómsveit Jarþrúðar (1989-94)

Hljómsveit Jarþrúðar

Hljómsveit Jarþrúðar starfaði um nokkurra ára skeið um og upp úr 1990, og sendi frá sér lög á safnplötum, sveitin var lengst af kvennasveit.

Hljómsveit Jarþrúðar var stofnuð árið 1989 af Lilju Steingrímsdóttur hljómborðsleikara og Ólafíu Hrönn Jónsdóttur söngvara og gítarleikara, og starfaði sveitin sem dúett fyrst um sinn, Lana Kolbrún Eddudóttir bassaleikari, Gunnar Erlingsson trommuleikari og Guðrún Jarþrúður Baldvinsdóttir söngkona og gítarleikari komu síðan inn í hana en sveitin er einmitt kennd við þá síðast töldu. Heimildir herma jafnframt að annar karlkyns meðlimur hafi verið í sveitinni um tíma, og gæti það hafa verið Magnús R. Einarsson gítarleikari.

Sveitin kom fyrst fram opinberlega árið 1992 og það sama ár bættist slagverksleikarinn Þórdís Claessen Gunnlaugsdóttir í Hljómsveit Jarþrúðar, þegar Gunnar trommuleikari hætti svo í sveitinni færði Þórdís sig yfir á trommusettið og þar með var sveitin skipuð konum eingöngu.

Hljómsveit Jarþrúðar kom ekki oft fram opinberlega, hún hafði fyrst komið fram á tíu ára afmæli Kvennaathvarfsins 1992 og það sama ár einnig á Vísnakvöldi Vísnavina sem haldið var á Blúsbarnum við Laugaveg en að öðru leyti fór lítið fyrir sveitinni.

Hljómsveit Jarþrúðar

Árið 1993 áttu þær stöllur lög á safnplötunum Íslensk tónlist 1993 (Ævinlega) og Blávatn: Átak gegn áfengi (Dalurinn) og lék sveitin eitthvað á tónleikum í tengslum þær útgáfur en það var ekki fyrr en 1994 þegar sveitinni bauðst að koma fram á norrænu kvennaráðstefnunni Nordisk forum í Finnlandi að hún lét meira að sér kveða á sviði – kannski rétt til að venja sig við að spila fyrir áhorfendur. Í Finnlandi kallaði Hljómsveit Jarþrúðar sig Jartruds band, og þá hafði Soffía Theódórsdóttir slagverksleikari bæst í hópinn en fljótlega eftir utanförina hætti sveitin störfum.

Hún kom þó aftur fram á sjónarsviðið árið 1998 og lék á tónleikum í tengslum við útgáfu safnplötunnar Stelpurokk en þar var einmitt lagið Dalurinn sem hafði áður komið út á safnplötu – þess má geta að fimm kvennahljómsveitir léku á þeim tónleikum sem hlýtur að vera einsdæmi hérlendis.