Hljómsveit Jóhanns G. Jóhannssonar (1974 / 1985 / 1989)

Tónlistarmaðurinn Jóhann G. Jóhannsson starfrækti að minnsta kosti í þrígang hljómsveitir sem kenndar voru við hann en þær voru allar settar saman fyrir sérverkefni.

Árið 1974 voru haldnir stórtónleikar með nokkrum þekktum hljómsveitum í Háskólabíói en auk þeirra var Jóhann G. Jóhannsson með hljómsveit sem var sérstaklega sett saman fyrir viðburðinn og var hún skipuð þeim Finni Torfa Stefánssyni gítarleikara og Ólafi Garðarssyni trommuleikara sem áður höfðu starfað með Jóhanni í Óðmönnum, Sigurði Rúnari Jónssyni [?] og Jóhanni sem lék sjálfur á bassa.

Leikfélag Reykjavíkur setti á svið í Iðnó haustið 1985 söngleikinn Land míns föður eftir Kjartan Ragnarsson sem einnig leikstýrði verkinu. Jóhann var fenginn til að annast tónlistarstjórn (en tónlistin samin var af Atla Heimi Sveinssyni) og var hljómsveit hans skipuð þeim Pétri Grétarssyni slagverksleikara, Gunnari Hrafnssyni kontrabassaleikara, Gunnari Egilson klarinettu- og saxófónleikara, Rúnari Georgssyni saxófónleikara og Sveini Birgissyni trompetleikara en Jóhann lék á píanó í uppfærslunni. Tónlistin sem eins konar stríðsáratónlist var gefin út á plötu, sem bar titilinn Land míns föður.

Fjórum árum síðar (1989) var svo söngleikurinn Síldin er komin eftir systurnar Iðunni og Kristínu Steinsdætur settur á svið Leikskemmunnar á vegum Leikfélags Reykjavíkur undir leikstjórn Þórunnar Sigurðardóttur, Valgeir Guðjónsson samdi tónlistina en hljómsveit undir stjórn Jóhanns annaðist flutninginn en hann annaðist ennfremur útsetningar. Tónlistin kom út á plötu Valgeirs Guðjónssonar – Sannar sögur og var sveitin skipuð þeim Jóhanni sem lék á hljómborð, Birgi Bragasyni á bassa, Pétri Grétarssyni á trommur og annan áslátt, Björgvini Gíslasyni á hljómborð og gítar og Árna Scheving á víbrafón, harmonikku, marimbu og saxófón.

Efni á plötum