Hljómsveit Jóhannesar Péturssonar (1957-75)

Harmonikkuleikarinn Jóhannes Pétursson (Jói P.) starfrækti hljómsveitir í eigin nafni þó ekki væri um samfellt samstarf að ræða í þeim efnum, þessar sveitir gengu stundum undir nöfnunum Hljómsveit Jóhannesar Péturssonar eða Jóhannes Pétursson og félagar, eða voru jafnvel nafnlausar eins og t.a.m. þegar hann var í samstarfi við Skapta Ólafsson trommuleikara (og söngvara) einan eða Skapta og Friðrik Theodórsson en sú sveit starfaði líklega mest á áttunda áratugnum, lék á árshátíðum, þorrablótum og þess konar samkomum og lék oftsinnis erlendis á skemmtunum Íslendingafélaga.

Flestar hljómsveitir Jóhannesar störfuðu þó líklega á sjöunda áratugnum, heimildir eru jafnvel fyrir hljómsveit í hans nafni frá sjötta áratugnum (1957) sem lék á dansleik í Hlégarði en árin 1962, 1964 og 1968 störfuðu hljómsveitir í hans nafni og léku ýmist á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landsbyggðinni, þannig eru bæði heimildir um að hljómsveit hans hafi leikið á héraðsmóti í Strandasýslu og við vígslu félagsheimilisins Tjarnalundar í Dalasýslu. Því miður er engar upplýsingar að finna um meðlimi og hljóðfæraskipan þessara sveita hans, og rétt er að nefna að þrátt fyrir að Jóhannes hafi fyrst og fremst verið harmonikkuleikari að þá lék hann á flest hljóðfæri.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um hljómsveitir Jóhannesar Péturssonar.