Hljómsveit Jóhannesar Þorsteinssonar (1944-45)

Hljómsveit Jóhannesar Þorsteinssonar (Jonna í Hamborg) starfaði yfir sumartímann á Hótel Norðurlandi á Akureyri um miðjan fimmta áratug síðustu aldar en sveitin hafði í raun tekið við af hljómsveit Sveins Ólafssonar sem lék á sama stað, öruggar heimildir eru fyrir því að sveitin hafi leikið sumrin 1944 og 45 á hótelinu en hún gæti einnig hafa verið starfrækt þar sumarið 1943 í nafni Jóhannesar.

Jóhannes Þorsteinsson (Jonni í Hamborg) var aðeins um tvítugt um þetta leyti en hann var efnilegur trompet- og píanóleikari og þótti kjörinn til að taka við stjórn sveitarinnar af Sveini, sumarið 1944 voru með honum Karl Karlsson trommuleikari, Héðinn Friðriksson píanóleikari, Karl Jónatansson saxófón- og harmonikkuleikari og Karl Adolfsson saxófónleikari en Jóhannes lék á trompet í þeirri útgáfu sveitarinnar, einnig munu Magnús Guðjónsson harmonikkuleikari og Arnljótur Sigurðsson trommuleikari hafa starfað með sveitinni þótt ekki sé ljóst hvenær það var. Engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu sveitina með Jóhannesi sumarið 1945 en þá um haustið flutti hann suður til Reykjavíkur.