
Hljómsveit Jóns Kjartanssonar
Hljómsveit Jóns Kjartanssonar á Selfossi starfaði á árunum 1948 til 1950 að minnsta kosti og lék þá yfir sumartímann á dansleikjum tengdum héraðsmótum framsóknarmanna í Árnes- og Rangárvallasýslum.
Hljómsveitarstjórinn Jón Kjartansson var frá Unnarholti á Skeiðum og lék á saxófón en ekki er alveg ljóst hverjir skipuðu sveitina með honum, þó liggur fyrir að Guðmar Guðjónsson klarinettuleikari var einn þeirra en auk þeirra voru trommu- og harmonikkuleikari í sveitinni.
Sveit Jóns lék sem fyrr segir á héraðsmótum á Suðurlandi s.s. á Laugalandi í Holtum, Goðalandi í Fljótshlíð og í Þrastarlundi í Grímsnesi en á síðast talda staðnum söng með sveitinni ung og efnileg söngkona að nafni Hulda Brynjólfsdóttir sumarið 1950.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.














































