Afmælisbörn 30. september 2024

Haukur Þorvaldsson

Glatkistan hefur upplýsingar um þrjú tónlistartengd afmælisbörn á þessum degi:

Helgi (Óskar) Víkingsson trommuleikari er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Helgi hefur leikið með fjöldanum öllum af hljómsveitum í gegnum tíðina og hér má nefna sveitir eins og Blúsbrot, VSOP, Örkina hans Nóa, Trassana, Villta vestrið, Dans á rósum, Munkum, Spíritus, Swizz, Nuuk, Speedwell blue, Vonlausa tríóinu og Ofris svo aðeins nokkrar séu upp taldar.

Haukur (Helgi) Þorvaldsson tónlistarmaður fagnar í dag áttatíu og eins árs afmæli sínu. Haukur hefur starfrækt og starfað með fjölda hljómsveita á austanverðu landinu og hér má nefna sveitir eins og Óma, Pan kvintett, Hljómsveit Hauks Þorvaldssonar, Tríó Adda rokk, Ringulreið og Hjónabandið svo aðeins fáar séu nefndar, þá hefur hann einnig verið virkur í harmonikkusamfélaginu á Höfn í Hornafirði.

Þá hefði óperusöngkonan Snæbjörg Snæbjarnardóttir (sópran) einnig átt afmæli á þessum degi en hún lést 2017. Snæbjörg (fædd 1932) nam söng hér heima og í Austurríki, hún hafnaði tilboðum um að starfa erlendis en kom heim og starfaði alla tíð á Íslandi, m.a. sem söngkennari en hún stjórnaði einnig kórum eins og Skagfirsku söngsveitinni sem hún stofnaði ásamt fleirum en Snæbjörg var einmitt fædd á Sauðárkróki.

Vissir þú að Einsi kaldi úr Eyjunum hefur aldrei verið til nema sem persóna í lagatexta, ólíkt því sem margir halda?