Hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar (1945-49)

Hljómsveit Kristján Kristjánssonar í Mjólkurstöðinni

Þegar talað er um hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar (KK) saxófónleikara ætla flestir að um sé að ræða hinn goðsagnakennda KK-sextett, Kristján rak hins vegar þrívegis hljómsveitir sem einfaldlega kölluðust Hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar.

Reyndar höfðu þeir Kristján, Svavar Gests trommuleikari og Magnús Blöndal Jóhannsson píanóleikari (síðar þekkt tónskáld) leikið saman á einum dansleik árið 1944 en ekki er víst að það tríó hafi verið í nafni Kristjáns. Fyrsta sveit Kristjáns undir þessu nafni var hins vegar starfrækt í Sandgerði sumarið 1945 en hann var fæddur þar og uppalinn þótt hann byggi reyndar á þeim tíma í Reykjavík en hann var við nám í Verzlunarskólanum. Hann tók á leigu gamalt fiskverkunarhús í Sandgerði sem hét Stígandi og hélt þar sjálfur dansleiki, en meðlimir með honum í sveitinni voru Svavar Gests, Sveinn [?] harmonikkuleikari og Sveinn [?] saxófónleikari. Sveitin starfaði aðeins þetta eina sumar en Kristján fór svo aftur til Reykjavíkur um haustið og þar varð til önnur sveit sem lék í samkomusal Mjólkurstöðvarinnar um veturinn 1945-46, sem þá var leigður út fyrir árshátíðir og einkasamkvæmi. Í þeirri sveit voru Kristján sjálfur, Svavar á trommur, Kristján Hansson píanóleikari og Róbert Einar Þórðarson harmonikkuleikari.

Þeir félagar Kristján og Svavar fóru árið 1946 utan til New York í tónlistarnám eins og þekkt er og stofnuðu síðar hljómsveit sem átti eftir að starfa allt til áramóta 1960-61 undir nafninu KK-sextettinn. KK-sextettinn starfaði ekki alveg samfleytt og sumarið 1948 fór sveitin í um eins árs pásu, Kristján stofnaði í millitíðinni nýja hljómsveit undir nafninu Hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar en ekki liggja fyrir upplýsingar um liðsskipan þeirrar sveitar, Þórarinn Óskarsson básúnuleikari var þó einn meðlima hennar en heimildir herma að hún hafi verið afar stór, janfvel um tíma tólf til átján manna sveit. KK-sextettinn tók svo aftur til starfa haustið 1949 en var reyndar stundum einnig kölluð Hljómsveit Kristjáns Kristjánssonar.