Hljómsveit Kristjáns Magnússonar (1960-62)

Kristján Magnússon píanóleikari starfrækti hljómsveit um tveggja ára skeið í byrjun sjöunda áratugarins, sem lék að því er virðist mestmegnis í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og Klúbbnum en sveitin varð fyrsta hljómsveitin sem lék í síðarnefnda húsinu.

Hljómsveitin tók til starfa um sumarið 1960 og starfaði eitthvað fram á 1962 en því miður eru upplýsingar um meðlimi hennar lítt aðgengilegar, þó liggur fyrir að Jón Páll Bjarnason gítarleikari starfaði með henni en þáverandi eiginkona hans – Elly Vilhjálm söng með sveitinni lengst af. Ragnar Bjarnason hafði sungið um tíma með sveitinni í upphafi og Sigurdór Sigurdórsson og Jóhann Gestsson undir lokin en upplýsingar um aðra meðlimi hennar vantar og er því óskað eftir þeim.

Síðar átti Kristján eftir að starfrækja djasshljómsveitir af ýmsum stærðum og er fjallað um þær annars staðar.