Hljómsveitakeppnin í Húsafelli [tónlistarviðburður] (1968-73 / 1987)

Húsafell 1967

Útihátíðir voru haldnar um árabil um verslunarmannahelgina í Húsafellsskógi, lengi vel hafði verið tjaldað á staðnum án nokkurs skipulags en sumarið 1967 var þar líklega fyrst haldin útihátíð í nafni UMSB (Ungmennasambands Borgarfjarðar) undir heitinu Sumarhátíðin í Húsafelli. Ári síðar var hljómsveitakeppni haldin í fyrsta skipti á hátíðinni en það átti eftir að verða fastur liður í dagskrá hennar næstu árin, þá var keppt um nafnbótina Táningahljómsveitin 1968 en sá titill átti eftir að fylgja keppninni þar til yfir lauk 1973.

Fimmtán þúsund manns sóttu Sumarhátíðina í Húsafelli um verslunarmannahelgina 1968 en ekki liggur fyrir hversu margar hljómsveitir voru um hituna, meðal þeirra voru sveitir eins og Smile, Trix og Tatarar en tvær þeirra síðar nefndu áttu eftir að verða nokkuð þekktar, það var hins vegar hljómsveit frá Akranesi – Kjarnar, sem sigraði í þessari fyrstu keppni. Sú sveit átti ekki eftir að vekja neina sérstaka athygli en hún hlaut peningaverðlaun fyrir sigurinn og slík verðlaun voru veitt fyrir efstu sætin í keppninni næstu árin.

Enn fleiri gestir sóttu Húsafell verslunarmannahelgina 1969 en þá er talið að um tuttugu þúsund manns hafði verið á hátíðinni. Níu hljómsveitir kepptu nú um sigurverðlaunin og komu þær sveitir alls staðar af landinu, það var siglfirska hljómsveitin Hrím sem varð hlutskörpust í það skiptið, Taktar urðu í öðru sæti en sú sveit hlaut reyndar flest atkvæði áhorfenda – það sem gerði útslagið var hins vegar að Hrím hlaut flest atkvæði dómnefndarinnar. Arfi hafnaði í þriðja sæti en meðal keppnissveita voru hljómsveitir frá Vestmannaeyjum, Ísafirði, Reykjavíkur og víðar

Frá hljómsveitakeppninni 1970

Þriðja keppnin var haldin sumarið 1970 en nú voru nokkru færri gestir á hátíðinni eða aðeins tólf þúsund – sem þætti þó líklega full boðlegt í dag, líklega hafði veðurspáin eitthvað um það að segja en rigning setti svip sinn á hátíðina. Sex hljómsveitir bitust um sigurinn í þetta skiptið en sigurvegarar keppninnar og Táningahljómsveitin 1970 var hljómsveitin Gaddavír 75 sem reyndar hafði verið skráð í keppnina á síðustu stundu, hún hlaut í verðlaun 20 þúsund krónur og vilyrði fyrir útgáfu tveggja laga plötu á vegum SG-hljómplatna. Af einhverjum ástæðum kom platan aldrei út, sveitin var búin að semja efnið á hana en var aldrei boðuð í upptökur. Hljómsveitin Arfi hafnaði í öðru sæti og Nafnið frá Borgarnesi í því þriðja, aðrar keppnissveitir voru Júbó frá Keflavík, Jana og Fjórða prelúdían.

Árið 1971 fækkaði aftur útihátíðargestum í Húsafelli en þeir vou þó á milli átta og níu þúsund talsins, rigning setti aftur strik í reikninginn en líklega voru fimm hljómsveitir skráðar til leik í hljómsveitakeppninni. Óvera frá Stykkishólmi varð hlutskörpust að þessu sinni, Tilfinning varð í öðru sæti, Tortíming í því þriðja, Innrás í fjórða og Flakkarar í fimmta sæti.

Enn fækkaði gestum Húsafellshátíðarinnar sumarið 1972 og enn rigndi, svo virðist sem fimm sveitir hafi einnig verið skráðar til leiks í það skiptið en þær voru Satan, Nýrækt, Námsfúsa Fjóla, Goðgá og Skóhljóð en sú síðast talda sigraði keppnina, hún var skólahljómsveit úr Hagaskóla.

Sumarhátíð í Húsafelli var haldin í sjötta skiptið árið 1973 og það reyndist jafnframt síðasta skiptið sem hátíðin var haldin – í bili. Fjórða skiptið í röð setti bleyta mark sitt á hátíðina og heimildir herma að aðeins ein hljómsveit hafi verið skráð í hljómsveitakeppnina svo fór að öllum líkindum ekki fram. Óskað er þó eftir frekari upplýsingum um það.

Auglýsing frá Húsafell 1987

Þar með var sögu Húsafellshátíðarinnar í raun lokið en fjórtán árum síðar var blásið til nýrrar hátíðar, Húsafell 1987 en þar voru nokkrar af vinsælustu hljómsveitum landsins samankomnar með Stuðmenn hljómsveit allra landsmanna í forsvari og fararbroddi – Stuðmenn ákváðu að halda í þá góðu hefð að stofna til hljómsveitakeppni en sveitin hafði haldið utan um slíkar keppnir um verslunarmannahelgar í Atlavík um nokkurra ára skeið og höfðu því haldgóða reynslu á því sviði. Fyrirkomulagið var svipað því og verið hafði í Atlavík, sveitirnar léku þrjú lög á laugardeginum og dómnefnd valdi þrjár af þeim til að leika til úrslita á sunnudeginum – í verðlaun voru hljóðverstímar og útgáfa tveggja laga plötu.

Svo fór að tuttugu og ein hljómsveit var skráð til leiks í keppninni og þar voru fjölmargar sveitir ungs tónlistarfólks sem síðar urðu vinsælar en rokk- og síðpönksveitir voru þar nokkuð áberandi, hér má nefna sveitir eins og Sogbletti, Daisy Hill Puppy Farm, Sjálfsfróun og Bootlegs en sveitirnar þrjár sem höfnuðu í þremur efstu sætunum voru þó nokkuð poppaðri – hljómsveit sem átti rætur að rekja til Menntaskólans í Hamrahlíð og gekk undir nafninu Nýdönsk sigraði keppnina, Blátt áfram varð í öðru sæti og Hvass í því þriðja. Ekki fór þó að tveggja laga plata kæmi út með Nýdanskri en lag (Síglaður) kom þó út á safnplötu um haustið og ári síðar sló sveitin í gegn með lagið Hólmfríður Júlíusdóttir – framhaldið þekkja flestir.

Skipulagðar útihátíðir með hljómsveitakeppni hafa ekki verið haldnar í Húsafelli síðan 1987.