Hljómsveit Ómars Diðrikssonar (1996-)

Trúbadorinn Ómar Diðriksson hefur starfrækt hljómsveitir í gegnum árum og meðal annars var hann með sveit í eigin nafni undir lok síðustu aldar og í byrjun þessarar.

Á árunum 1996 og 97 starfaði sveit undir nafninu Hljómsveit Ómars Diðrikssonar og lék á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins og annars staðar en hún var í einhverjum tilfellum einnig kölluð Dúó Ómars Diðrikssonar svo hún hefur þá væntanlega verið misstór eftir tilefninu hverju sinni. Elísa Vilbergsdóttir söngkona (og hljómborðsleikari) starfaði eitthvað með Ómari í hljómsveit hans og eins gæti Ómar Örn Arnarson gítarleikari hafa verið í sveitinni en þau þrjú höfðu áður myndað tríóið Eitt kvað annað. Að öðru leyti er ekki að finna upplýsingar um hverjir skipuðu sveit Ómars.

Árið 2003 lék sveit Ómars, Tríó Ómars Diðrikssonar á Töðugjöldum á Hellu og einnig eru heimildir um að sveit hafi starfað í hans nafni árið 2010 en engar upplýsingar er að finna um meðlimi þeirrar sveita og er því óskað hér með eftir þeim.