Afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um hljómsveit sem starfaði í Íslendingabyggðum í Winnipeg í Kanada um tuttugu ára skeið á fyrri hluta og um miðbik síðustu aldar undir nafninu Hljómsveit Pálma Pálmasonar.
Fyrir liggur að sveitin starfaði fyrst árið 1931 og 32 og lék þá á skemmtunum Vestur-Íslendinga bæði á 17. júní og Íslendingahátíðum sem haldin var í ágúst, en meðlimir sveitarinnar voru þá hljómsveitarstjórinn Pálmi Pálmason (f. Pálmi Sveinsson) tónlistarkennari sem var fiðluleikari, Pearl Guðrún Pálmason fiðluleikari (systir Pálma), Michael Betnchuk og Henri Benoist. Líklega var um einhvers konar strengjakvartett að ræða en engar upplýsingar er að finna um hljóðfæraskipan sveitarinnar að öðru leyti, hún var enn starfandi 1933 með sama mannskap þegar hún lék undir söng Karlakórs Íslendinga í Winnipeg á tónleikum. Þessi hópur starfaði töluvert saman ásamt fleirum en ekki í nafni hljómsveitar Pálma.
Sveitir í nafni Pálma störfuðu einnig árin 1935 og 36 (kvintett og einnig stærri sveit), 1939 (strengjasveit ásamt píanóleikaranum Gunnari Erlendssyni), 1949, 1951 og 1953 við ýmis og ólík tækifæri en þær störfuðu langt frá því samfellt og voru sjálfsagt skipaðar hinum og þessum hljóðfæraleikurum, fjölmargar heimildir herma frá spilamennsku Pálma með hinum og þessum hljóðfæraleikurum en þær eru ekki merktar nafni sveitar hans. Allar frekari upplýsingar um Pálma Pálmason og hljómsveitir hans væru því vel þegnar.














































