
Þorskastríðið
Hljómsveitakeppni var haldin á vegum útgáfufyrirtækisins Cod music í þrígang á árunum 2008 til 2010, sigurvegarar keppninnar hlutu að launum útgáfusamning hjá Cod music.
Vorið 2007 hafði veftímaritið getrvk.com staðið fyrir Hljómsveitasveitinni Krúnk í Iðnó í samstarfi við Apple á Íslandi, Ölgerðina Egil Skallagrímsson og Cod music þar sem fyrstu verðlaunin voru útgáfusamningur og hljóðverstímar hjá Cod music, þá hljómsveitakeppni sigraði blúsrokksveitin Johnny and the rest en tónlistarmaðurinn Jón Tryggvi hafnaði í öðru sæti.
Svo virðist sem Cod music hafi ákveðið að halda slíka keppni aftur að ári (2008) en að þessu sinni án samstarfsaðila, sú keppni sem gekk undir nafninu Þorskastríðið var upphaflega hugsuð sem lagakeppni þar sem hver keppandi gat sent inn tvö til fjögur lög í gegnum internetið en það var í fyrsta skipti sem keppni var haldin með því fyrirkomulagi hérlendis. Þegar skilafrestur laganna var liðinn kom í ljós að rúmlega hundrað hljómsveitir hefðu sent inn um þrjú hundruð lög. Sigurvegari keppninnar það árið var hljómsveitin / tónlistarmaðurinn Steini eða Þorsteinn Einarsson og hlaut hann að launum plötusamning hjá Cod music, kassa af Þorskalýsi og tíu kíló af þorskflökum.

Auglýsing fyrir Þorskastríðið
Vorið 2009 hélt Cod music Þorskastríðs-keppnina öðru sinn en að þessu sinni var henni stillt upp sem hljómsveitakeppni, enn fleiri sveitir sendu inn lög en árið á undan en hundrað þrjátíu og fimm sveitir tóku þátt og til marks um fjölbreytileika keppenda má nefna að þeir voru á aldrinum 12 til 56 ára. Marta Sif Ólafsdóttir sem kallaði sig Mysterious Marta sigraði keppnina að þessu sinni.
Þorskastríðið var haldið í þriðja sinn vorið 2010 og að þessu sinni var ákveðið að aðeins yrði tekið við lögum á íslensku, það dró ekki mikið úr aðsókninni því níutíu og tvær hljómsveitir tóku þátt í keppninni. Hljómsveitin Bárujárn sigraði Þorskastríðið í þetta sinn, sem reyndist vera síðasta skiptið sem keppnin var haldin en sveitin hlaut að launum hljóðverstíma til að vinna þrjú lög sem útgáfufyrirtækið skuldbatt sig til að markaðssetja, ársbirgðir af lýsi og ferð á G-festival í Færeyjum. Þessi síðast hljómsveitakeppni Cod music var í samstarfi við Rás 2.














































