
Hljómsveit Steinþórs Steingrímssonar
Hljómsveit Steinþórs Steingrímssonar píanóleikara (einnig stundum nefnd Sextett Steinþórs Steingrímssonar) starfaði í nokkra mánuði veturinn 1949-50 og lék þá líklega eingöngu í Mjólkurstöðinni við Laugaveg, mannabreytingar settu svip á sveitina þann skamma tíma sem hún starfaði.
Sveitin var stofnuð um haustið 1949 og kom fyrst fram á dansleikjum í Mjólkurstöðinni í október, meðlimir hennar í upphafi voru þeir Guðmundur Vilbergsson trompetleikari, Karl Karlsson trommuleikari, Ríkharður Jóhannsson saxófón- og klarinettuleikari og svo Steinþór sjálfur sem lék á píanó. Sigrún Jónsdóttir söng með sveitinni í byrjun og svo einnig Haukur Morthens. Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari kom inn í sveitina í desember og söng þá einnig eitthvað og fljótlega eftir það komu þeir Hallur Símonarson bassaleikari, Sveinn Jóhannsson trommuleikari og Guðmundur Finnbjörnsson fiðlu- og alto saxófónleikari í sveitina í stað Karls og Ríkharðs. Guðmundur Finnbjörnsson staldraði ekki lengi í hljómsveitinni og Magnús Randrup leysti hann af hólmi í mars. Um mánuði síðar hætti sveitin störfum, hún hafði þá starfað í um hálft ár og þá höfðu um tíu hljóðfæraleikarar starfað með henni – Þorsteinn Eiríksson trommuleikari hafði þá líklega einnig komið við sögu sveitarinnar um skamma hríð.
Hljómsveit Steinþórs kom aftur saman um haustið og lék þá á einum dansleik af því er virðist, og var hún þá skipuð þeim Steinþóri, Magnúsi, Guðmundi Vilbergssyni, Sveini og Halli. Steinþór átti síðar eftir að starfrækja tríó í eigin nafni en fjallað er um þá sveit annars staðar á Glatkistunni.














































