
Hot damn
Dúettinn Hot! damn starfaði um tveggja ára skeið laust eftir síðustu aldamót og sendi frá sér eina skífu þar sem lagið Hot damn, that woman is a man sló í gegn og naut töluverðra vinsælda.
Hot damn! kom fyrst fram á sjónarsviðið vorið 2004 en dúettinn var skipaður gítarleikaranum Smára Tarfi Jósepssyni sem þá hafði starfað með ýmsum þekktum sveitum eins og Quarashi og Spitsign, og Jens Ólafssyni söngvara sem hafði gert garðinn frægan með Toy machine og Brain police.
Dúettinn sendi frá sér lag í spilun í útvarpi um vorið – Hot damn, that woman is a man, sem naut töluverðra vinsælda um sumarið og skoraði m.a. hátt á vinsældalista útvarpsstöðvarinnar X-ins. Þeir félagar hófu um það leyti að vinna heila plötu með tónlist sinni en tónlistin var tveggja manna rokk, samið af Smára og keyrt áfram af gítar og söng.
Sveitin lék nokkuð um sumarið og haustið og hér má t.d. nefna minningartónleika um Fróða Finnsson og X-mas jólatónleika X-ins, og eftir áramótin kom sveitin fram á fjölmörgum tónleikum á höfuðborgarsvæðinu s.s. á Grand rokk, Dillon og víðar – þá var sveitin meðal flytjenda á Blúshátíð í Reykjavík um páskana 2005. Um það leyti kom platan svo út undir titlinum The big‘n‘ nasty groove‘o mutha, níu laga plata í anda stórsmellsins frá því vorið á undan. Skífan náði þó ekki þeim hæðum sem fyrrgreint lag hafði náð og hlaut jafnframt mjög misjafna dóma, yfirleitt nokkuð jákvæða eins í Fréttablaðinu sem gaf henni mjög góða dóma og í Blaðinu og Morgunblaðinu sem voru þokkalega jákvæðir einnig en DV var ekki eins jákvætt í umfjöllun sinni. Þess má geta að þeir félagar fengu Bubba Morthens til að spila munnhörpusóló í einu laganna.
Í kjölfar útgáfu plötunnar lék Hot damn! nokkuð víða, dúettinn fór m.a. vestur í fangelsið á Kvíabryggju til tónleikahalds og svo í tónleikaferð um landsbyggðina, einnig lék sveitin nokkuð á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu fram að áramótum en hún virðist svo hafa hætt störfum síðla árs 2005 eftir tæplega tveggja ára samstarf.














































