Hljómsveit Tage Möller (1938-40 / 1944-50)

Hljómsveit Tage Möller

Píanóleikarinn Tage Möller starfrækti tvívegis hljómsveitir í eigin nafni, annars vegar við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari en hins vegar við lok styrjaldarinnar og eftir hana.

Hljómsveit Tage Möller hin fyrri var líklega nær einvörðungu tengd alþýðuflokknum og verkalýðshreyfingunni en sveitin lék bæði á skemmtunum og dansleikjum tengt 1. maí hátíðarhöldum en einnig á uppákomum alþýðuflokksfélags Reykjavíkur í Alþýðuhúsinu við Hverfisgötu. Engar frekari upplýsingar er að finna um þessa hljómsveit Tage, hvorki meðlima- eða hljóðfæraskipan hennar enda er hugsanlegt að hún hafi ekki starfað alveg samfleytt á þessum árum (1938 til 1940). Um þetta leyti (1935-39) hafði hljómsveit gengið undir nafninu Nýja bandið og leikið á dansleikjum í K.R. húsinu (sem áður hafði gengið undir nafninu Bárubúð) og Iðnó, og virðist sem Tage hafi einnig verið hljómsveitarstjóri þar – fjallað er um þá sveit annars staðar á vefsíðunni.

Hljómsveit Tage Möller hin síðari var stofnuð vorið 1944 til að leika undir tónlistaratriðum í revíusýningum og á dansleikjum tengdum þeim á eftir, þannig starfaði sveitin næstu árin en árið 1946 virðist sem sveitin hafi einnig farið að leika á almennum dansleikjum í Þórscafe og síðar einnig í Iðnó. Ekkert liggur fyrir um skipan sveitarinnar í byrjun en þetta var sex manna instrumental sveit árið 1966 – skipuð fjórum harmonikkuleikurum, trommuleikara og píanóleikara (Tage), og svo virðist sem Jón Sigurðsson (bankamaður) hafi verið einn harmonikkuleikaranna. Þórhallur Stefánsson kom inn í sveitina þarna sem trommuleikari og árið 1948 bættist Óskar Cortes inn í sveitina og lék á fiðlu, alto saxófón og klarinett en sveitin var þá líklega töluvert breytt frá revíuspilamennskunni, og harmonikkuleikurinn á undanhaldi.

Árið 1949 lék sveitin í Iðnó og Þórscafe sem fyrr segir og virðist einnig hafa leikið úti á landsbyggðinni um sumarið en vegasamgöngur voru þá smám saman að verða skárri í kjölfar veru herliðs Breta og Bandaríkjamanna hér á landi, sveitin lék t.d. á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sumarið 1949 og um veturinn 1949-50 var fyrirkomulagið hjá sveitinni á þann veg að sveitin lék flesta virka daga í Þórscafe og á laugardagskvöldum í Iðnó – í Þórscafe lék tríó undir stjórn Tage svokallaða kaffihúsatónlist síðdegis en þar voru á ferð auk hans þeir Óskar Cortes á fiðlu og Þórhallur Árnason á selló, sjálfur lék Tage sem fyrr segir á píanó. Á kvöldin var sveitin kvintett þeirra Tage, Óskars (sem lék þá á alto saxófón og klarinett), Adolfs Theodórssonar tenór saxófón- og harmonikkuleikara, Lárusar Jónssonar alto saxófón- og klarinettuleikara og John Kleif trompetleikara en Þórhallur Árnason var ekki í þeim hópi – nafni hans Þórhallur Stefánsson trommuleikari lék hins vegar með sveitinni á laugardagskvöldum þegar hún lék í Iðnó. Óskar Cortes sá um að útsetja fyrir hljómsveitina.

Hljómsveit Tage Möller starfaði í Þórscafe og Iðnó fram á vorið 1950 og lék þá um tíma í Góðtemplarahúsinu (Gúttó við Tjörnina) áður en hún hætti störfum. Til eru varðveittar upptökur með sveitinni þar sem hún leikur undir söng Nínu Sveinsdóttur en þær eru líklega úr revíunni Upplyftingu frá árinu 1946, lakkplötur með upptökunum fundust löngu síðar.