
Þórarinn Freysson
Á þessum öðrum degi jóla er að finna þrjú afmælisbörn tengd íslenskri tónlist:
Trausti Júlíusson blaðamaður, plötugrúskari og tónlistargagnrýnandi er sextíu og eins árs gamall í dag. Trausti hefur fjallað um tónlist frá ýmsum hliðum og setið í ýmsum ráðum og nefndum tengdum íslenskri tónlist s.s. tónlistarsjóði Kraums. Trausti hefur ennfremur leikið með hljómsveitum eins og Vídeósílunum, Ást og Stunu úr fornbókaverslun.
Þá á Þórarinn Freysson bassaleikari hljómsveitarinnar Sixties fimmtíu og eins árs afmæli á þessum degi. Þórarinn hefur leikið inn á fjölda platna með hljómsveitinni Sixties en á yngri árum sínum lék hann með sveitum sem spiluðu öllu harðari tónlist, meðal þeirra má nefna In Memoriam, Mortuary og Bone China en auk þess hefur hann leikið á bassa með sveitum eins og Kinkí og T-Vertigo.
Og að síðustu er hér nefndur gítarleikarinn Guðjón Steinþórsson en hann var fæddur á þessum degi árið 1955. Guðjón lék með fjölda hljómsveita á sínum tíma og hér má nefna sveitir eins og Amon Ra, Blúsbrot Garðars Harðarsonar, Bumburnar, Goðgá og Heimavarnarliðið. Guðjón lést árið 2024.
Vissir þú að Barnakór Barnaskóla Hafnarfjarðar gaf út tveggja laga jólaplötu fyrir jólin 1962?

