Hildur Tryggvadóttir (1958-)

Hildur Tryggvadóttir

Sópran söngkonan Hildur Tryggvadóttir var áberandi í norðlensku söng- og tónlistarstarfi um árabil, söng með fjölda kóra auk þess að koma fram sem einsöngvari á ótal tónleikum.

Hildur Tryggvadóttir (f. 1958) er reyndar höfuðborgarbúi að uppruna, hún hóf að syngja í Pólýfónkórnum ung að árum og naut fyrstu leiðsagnar í söng innan kórskóla kórsins. Hún var þó ekki orðin tvítug þegar hún giftist norður í Köldukinn í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem hún átti eftir að búa um tveggja áratuga skeið og setja heilmikinn svip á sönglífið í sýslunni. Þar söng hún einsöng í fyrsta sinn þegar hún kom fram með karlakórnum Goða sem þá starfaði austan Vaðlaheiðar, og eitthvað söng hún á þessum árum opinberlega ein síns liðs.

Þegar Kvennakórinn Lissý var stofnaður árið 1985 tók Hildur strax þátt í starfi hans og átti eftir að syngja með kórnum um langa hríð, og kom margoft fram með honum sem einsöngvari á tónleikum fyrir norðan. Það var svo árið 1990 sem hún hóf að læra söng við Tónlistarskólann á Akureyri og sinnti því námi næstu árin samhliða bústörfum í Kinninni, kennarar hennar í söngnum voru Margrét Bóasdóttir, Hólmfríður Benediktsdóttir og Már Magnússon. Meðfram námi sínu átti hún eftir að koma heilmikið fram sem einsöngvari með hinum ýmsum kórum s.s. Kirkjukór Grenjaðarstaðs, Kór Reykjahlíðarkirkju, Kór Tónlistarskólans á Akureyri og Söngfélaginu Sálubót en hún var einn af stofnfélögum síðastnefnda kórsins. Þá söng hún einnig einsöng á tónleikum söngdeildar tónlistarskólans og tók þátt í uppfærslum m.a. á óperunni Töfraflautunni og á Jólatoríu Bach fyrir norðan, auk þess að syngja einnig á ýmsum viðburðum í heimasveitinni.

Hildur Tryggvadóttir 1987

Eftir að Hildur lauk söngprófi við Tónlistarskólann á Akureyri vorið 1997 flutti hún þangað og tók þá t.a.m. þátt í uppfærslum Leikfélags Akureyrar á Söngvaseið (Sound of music), óperunni Sígaunabaróninum og óperettunni Helenu fögru svo dæmi séu nefnd og fór þá einnig að syngja með Kvennakórnum Emblu og Kammerkór Akureyrar – Hymnodiu sem hún átti eftir að syngja lengi með – og oft einsöng. Hún hélt jafnframt áfram að syngja einsöng með hinum og þessum kórum og hér má nefna Kirkjukór Húsavíkurkirkju, Kór Tónlistarskólans á Akureyri, Samkór Dalvíkur, Karlakórinn Hreim og áðurnefnt Söngfélagið Sálubót sem hún var þá ekki lengur meðlimur í. Hildur kom jafnframt áfram heilmikið fram sem einsöngvari s.s. við messuhald á Akureyri sem og á samkomum fyrir eldri borgara.

Hildur söng lengst með Kammerkór Akureyrar – Hymnodiu en þess má einnig geta að hún söng í Dido og Aeneas, fyrstu óperuuppfærslunni sem sett var á svið í tónlistarhúsinu Hofi á Akureyri (vorið 2012). Eftir að hún fluttist suður yfir heiðar hefur hún minna sungið einsöng en hefur líklega starfað með kórum á höfuðborgarsvæðinu á seinni árum.