Hljómsveit Þorsteins Þorsteinssonar (einnig nefnd Hljómsveit Þorsteins R. Þorsteinssonar) starfaði á árunum 1994 til 2011 að minnsta kosti, framan af líklega nokkuð stopult en nokkuð samfleytt eftir aldamótin.
Litlar upplýsingar er að finna um hljóðfæra- og meðlimaskipan sveitarinnar nema í upphafi (1994) en þá skipuðu sveitina líklega Edwin Kaaber gítarleikari, Gunnar Bernburg bassaleikari, Þorvaldur Björnsson harmonikkuleikari, Þorsteinn hljómsveitarstjóri gítar- og harmonikkuleikari og Birgir Hólm Ólafsson söngvari.
Sveit Þorsteins starfaði líklega nær eingöngu innan harmonikkusamfélagsins á höfuðborgarsvæðinu og lék t.a.m. margsinnis á skemmtikvöldum og dansleikjum á vegum Félags harmonikuunenda í Reykjavík í Glæsibæ, Húnabúð í Skeifunni, Fóstbræðraheimilinu og víðar í Reykjavík.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um þessa sveit, s.s. um aðra meðlimi hennar og hljóðfæraskipan.














































