
Hlynur Höskuldsson
Tónlistarmaðurinn Hlynur Höskuldsson kom víða við á tónlistarferli sínum en hann starfaði með fjölda hljómsveita, Hlynur lét ekki fötlun í kjölfar alvarlegs slyss stöðva sig og vakti víðs vegar athygli sem einhenti bassaleikarinn.
Hlynur var fæddur í árslok 1953 og var líklega um fjórtán ára gamall þegar hann hóf að leika með hljómsveitinni Raflost þar sem hann var hljómborðsleikari en hann hafði þá eitthvað lært á píanó, sú sveit keppti m.a. í hljómsveitakeppni í Húsafelli um verslunarmannahelgi. Í kjölfarið kom svo hljómsveitin Eilífð og síðan sveitirnar Dýpt og Fífí & Fófó.
Hlynur lenti í alvarlegu vinnuslysi rétt tæplega tvítugur að aldri þegar hann missti framan af hægri handlegg rétt fyrir neðan olnboga og ólíklegt þótti að hann myndi aftur leika á hljóðfæri. Átta ár liðu þar til hann hóf að gera tilraunir með að leika á bassa en hann lét útbúa fyrir sig eins konar hólk úr leðri með áfastri bassanögl og þannig náði hann leikni við að leika á hljóðfærið. Hann hóf í kjölfarið að leika á nýjan leik með hljómsveitinni Dá árið 1984 og á eftir fylgdu sveitir eins og Jamisus, De Vunderfoolz og Barbie á níunda áratugnum og svo Silfurtónum á þeim tíunda en sú sveit varð reyndar töluvert þekkt og sendi t.a.m. frá sér plötu. Hlynur hætti líklega að starfa með hljómsveitum um miðjan tíunda áratuginn, að minnsta kosti er ekki að finna neinar frekari upplýsingar um tónlistarferil hans eftir að hann lék með Silfurtónum.
Hlynur Höskuldsson lést eftir erfið veikindi á sjötugasta aldursári sínu, árið 2023.














































