
Hnotubrjótarnir
Tvíeykið Hnotubrjótarnir starfaði í raun ekki sem hljómsveit þótt það kæmi reyndar einu sinni fram opinberlega en um var að ræða tónlistarsamstarf þeirra Heimis Más Péturssonar og Þórs Eldon, þeir sendu frá sér eina plötu.
Heimir Már hafði verið í tónlist á sínum yngri árum og starfað þá með hljómsveitinni Reflex sem keppti í fyrstu Músíktilraununum en hafði eftir það mestmegnis fengist við að semja ljóð og texta, m.a. fyrir Rúnar Þór bróður sinn en einnig gefið út eins konar ljóðaplötu. Þór Eldon hafði verið öllu fyrirferðameiri í tónlistinni s.s. í þekktum sveitum eins og Sykurmolunum, Unun en einnig minna þekktum sveitum eins og Hinu afleita þríhjóli, Fan Houtens Kókó, Jazzhljómsveit Konráðs Bé, Ónýta bókasafninu og Kjötstúlkunni, hann hafði einnig gefið út plötu í eigin nafni ásamt Degi Sigurðarsyni ljóðskáldi. Með þennan bakgrunn hófu þeir félagar samstarf sumarið 2009 sem síðan hlaut nafnið Hnotubrjótarnir, upphaflega var lagt upp með upptöku á einu lagi en tveimur árum síðar var komin fullunnin plata sem þeir höfðu soðið saman með aðstoð vina.
Platan sem hlaut nafnið Leiðin til Kópaskers (en þar hafði Heimir Már búið um tíma á unglingsárum sínum) var tíu laga og hafði að mestu að geyma misþekkt lög eftir aðra við texta Heimis, Heimir átti reyndar sjálfur tvö laganna (Myrkir atburðir og Að takmörkuðu leyti) en það voru endurútsettar lagasmíðar frá Reflex árunum – einn textinn var svo eftir Kristján frá Djúpalæk (Vor í Vaglaskógi).
Leiðin til Kópaskers kom út snemma sumars 2011 á vegum Smekkleysu og hlaut ágæta dóma í Fréttablaðinu en síðri í Morgunblaðinu, plötunni var ekki fylgt eftir með neinum hætti (utan hlustunarpartís) en þeir félagar komu þó fram undir Hnotubrjótanafninu á opnunarhátíð Hinsegin daga í Háskólabíói síðar um sumarið, það var í eina skiptið sem sveitin kom fram opinberlega.
Hnotubrjótarnir hafa eftir útgáfu plötunnar ekkert haldið áfram með samstarfið en sveitin mun þó eiga eitthvað efni sem hugsanlega verður gefið út síðar, eitthvað af því efni mun vera aðgengilegt á Youtube.














































