Hot ice [2] [útgáfufyrirtæki] (1980-82)

Merki Hot Ice Music

Útgáfufyrirtæki mun hafa verið starfandi, eitt eða tvö undir nafninu Hot Ice – annars vegar er um að ræða Hot Ice dótturfyrirtæki Steina sem Steinar Berg Ísleifsson hugðist stofna í Bretlandi til að sinna útrás íslenskra tónlistarmanna, hins vegar útgáfufyrirtæki sem stofnað var og starfrækt í Svíþjóð undir sama nafni um svipað leyti. Hugsanlegt er að það sé sama fyrirtækið.

Steinar Berg ætlaði árið 1980 að gefa út smáskífu með You & I (Þú og ég) í Bretlandi og Hollandi undir Hot Ice merkinu og þá kvaðst hann í blaðaviðtali einnig vera með hugmyndir um að gefa út plötur með Gunnari Þórðarsyni og Utangarðsmönnum undir sama merki, engar vísbendingar eru um að þessar skífur hafi komið út á sínum tíma en nokkrum mánuðum síðar birtist hins vegar útgáfufyrirtæki í Svíþjóð undir sama nafni (Hot Ice Music) í eigu Arnars Hákonarsonar. Það fyrirtæki gaf út plötuna 45RPM með Utangarðsmönnum í Svíþjóð síðsumars 1981 og um það leyti stóð einnig til að gefa út plötuna Geislavirkir með Utangarðsmönnum (Outsiders) undir titlinum Radioactive, óvíst er þó hvort platan kom út eða hvort einungis hafi verið gerðar prufupressur af plötunni, það sama er að segja um plötuna As Above með Þey um svipað leyti. Hot Ice fyrirtæki Arnars mun þó hafa gefið út fáeinar plötur með sænsk-íslensku sveitinni Iceland og svo fjögurra laga smáskífu Grýlnanna sem áður hafði komið út heima á Íslandi – Grýlurnar kölluðust þar Häxorna.

Eftir stendur spurningin hvort Hot Ice Steinars og Arnars séu sama fyrirtækið því bæði Utangarðsmenn og Grýlurnar höfðu gefið út plötur undir merkjum Steinars heima á Íslandi. Óskað er eftir frekari upplýsingum um málið.