Myrkvi sendir í dag frá sér breiðskífuna Rykfall sem er þriðja skífa sveitarinnar. Myrkvi er hugarfóstur tónlistarmannsins Magnúsar Arnar Thorlacius og áður höfðu komið út Reflections (2020) og Early warning (2023) sem hann hafði unnið í samstarfi við Yngva Rafn Garðarsson Holm. Rykfall er hins vegar unnin af Magnúsi einum og er eins og segir í fréttatilkynningu sjálfstæðasta verk listamannsins til þessa en nánast hvert einasta smáatriði plötunnar er spilað eða útsett af honum. Markmiðið væri að skapa eitthvað sem gæti staðist tímans tönn.
Platan fjallar um að leggja allt undir og eltast við draum. Hún hefst á slíkri yfirlýsingu og hápunkti þess frelsis, sem einnig veitir rými til þess að horfa yfir farinn veg. En nýjum raunveruleika fylgja óhjákvæmilega erfiðleikar og með tímanum seytla inn efasemdir um hvort draumurinn sé að nálgast, sem splundrar sjálfsmyndinni. Eftir sitja biturt bragðið og spurningin um hvort byrja eigi upp á nýtt eða segja þetta gott.
Nafnið Rykfall er kaldhæðinn spádómur fyrir verkið og lýsir í senn meginþemanu: jafnvæginu milli bjartsýni og vonbrigða. Með því að storka örlögunum á þennan hátt, vonast Myrkvi til þess að slá vopnin úr höndum tímans, því það má finna fegurð í týndum perlum, jafnvel þó þær safni ryki.
Öll lög og textar Rykfalls eru eftir Magnús sjálfan en Arnar Guðjónsson annaðist upptökur og hljóðblöndun og Sigurdór Guðmundsson sá um hljómjöfnun.en útgáfufyrirtækið Baggabotn gefur skífuna út. Magnús sér sjálfur um allan söng á plötunni og um hljóðfæraleik að mestu en einnig koma þó við sögu áðurnefndur Arnar, Arnór Sigurðarson, Sigurður Thorlacius og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson.
Verkefnið var styrkt af Tónlistarsjóði Tónlistarmiðstöðvar, Tónskáldasjóði RÚV og STEFs, Hljóðritasjóði Rannís og Upptökusjóði STEFs.
Hér má heyra plötuna Rykfall með Myrkva.














































