
Housebuilders
Hljómsveitin Housebuilders er líklega það sem kalla mætti safnplötuband en sveitin hefur sent frá sér fjölda laga svo gott sem eingöngu á safnplötum en á árunum 1997 til 2002 komu á annan tug laga út með sveitinni á slíkum plötum, þar voru bæði frumsamin lög og endurhljóðblandanir á eldri lögum en Housebuilders sem er danstónlistarsveit hefur sérhæft sig í slíkum endurgerðum, sveitin hefur þó aðeins komið fram opinberlega í fáein skipti.
Housebuilders (einnig ritað House builders) var upphaflega tvíeyki – dúett bræðranna Mána og Nökkva Svavarssona en sá fyrrnefndi hafði samið og framleitt danstengda tónlist með sveitum eins og Cosa nostra og Pís of keik, þeir bræður eru synir tónlistarhjónanna Svavars Gests og Ellyjar Vilhjálms. Svo virðist sem Máni hafi einn starfað undir Housebuilders nafninu í seinni tíð.
Fyrsta afurð þeirra bræðra var lagið El ritmo sem kom út á safnplötunni Reif í fíling sem kom út sumarið 1997, lagið komst inn á bæði X-listann og Íslenska listann og kom svo aftur í lok árs á plötunni Pottþétt ´97 (og síðar á Fire and ice: Music from Iceland), í framhaldinu sendu þeir frá sér Sure shot á Pottþétt 8 en lagið hafði einnig komið út á plötu með tónlist úr kvikmyndinni Blossi 810551. Í kjölfarið fylgdu fleiri lög, t.d. Dans dans dans (endurgerð af Þú og ég smellinum frá 1979) á Pottþétt 9 og vakti það töluverða athygli og vinsældir.
Næstu árin hélt Housebuilders áfram að gefa út lög á safnplötum, Be there kom út á Pottþétt 12 sumarið 1998 en þar söng Regína Ósk Óskarsdóttir með sveitinni, árið 1999 komu þrjú lög út – Remake my fire, Feel for me á Pottþétt 16 og svo endurhljóðblöndun af Eurovision smelli Selmu Björnsdóttur, All out of luck á safnplötunni Pottþétt popp. Samstarfið við Selmu leiddi til útgáfu sex laga þröngskífu þar sem lagið Respect yourself var í fjórum útgáfum en Housebuilders var að baki þriggja þeirra endurhljóðblandana.
Fleiri útgáfur komu út aldamótaárið 2000, Mr. Bongo kom út á Pottþétt 20 og naut vinsælda, og um haustið var sveitin meðal fleiri listamanna sem heiðruðu Stuðmenn með endurgerð tónlistarinnar úr kvikmyndinni Með allt á hreinu, framlag Housebuilders var lagið Að vera í sambandi, sem þeir unnu með sjálfum Stuðmönnum. Árið 2001 kom út lagið No good for me ásamt Miss Margo á safnplötunni Poppfrelsi og ári síðar átti sveitin lagið Time like this á Smellum.
Þar með var safnplötuveislunni lokið að sinni og svo virtist sem Housebuilders nafninu hefði verið lagt en svo varð þó ekki, árið 2009 kom út endurhljóðblöndunarplatan Can‘t walk away (Party zone remix) með Herberti Guðmundssyni sem tileinkuð var samnefndum stórsmelli frá 1985 en Housebuilders áttu tvær af þeim átján endurhljóðblöndunum sem þar var að finna.
Árið 2024 sendi sveitin frá sér enn eina endurhljóðblöndunina, að þessu sinni var um að ræða lagið Hvers vegna varst‘ ekki kyrr sem Pálmi Gunnarsson hafði gert vinsælt fyrir margt löngu. Líklega er Máni einn að baki Housebuilders nafninu í dag og má ætla að fleiri lög muni koma áfram með sveitinni þó langt kunni að líða á milli þeirra.














































