Séra Hjalti Þorsteinsson var ekki tónlistarmaður í þeirri merkingu sem lögð er í hugtakið í dag en hann var hæfileikaríkur á ýmsum sviðum lista og tónlist var þeirra á meðal, hann var einn fyrstur Íslendinga til að leggja stund á tónlist og hljóðfæraleik.
Hjalti fæddist á Möðrudal á Fjöllum árið 1665, hann var tekinn í fóstur tveggja ára gamall en gafst kostur á að mennta sig í guðfræði – fyrst á Hólum og síðan í Skálholti þar sem Þórður Þorláksson var biskup en sá var tónlistarmaður rétt eins og Hjalti sem einnig þótti góður söngmaður.
Þegar Hjalta bauðst eftir nám í Skálholti að fara til Kaupmannahafnar í framhaldsnám hvatti biskup hann til að nema þar tónlist sem og Hjalti gerði en þar lærði hann á orgel og reyndar einnig höggmyndalist og málaralist. Líklega hafði Þórður biskup hug á að gera hann að einhvers konar organista í Skálholti en fljótlega eftir að hann kom heim lést hins vegar presturinn í Skálholti og tók Hjalti við starfi hans og var þá úti um frekari frama í tónlist. Hjalti starfaði sem prestur til æviloka (d. 1754), og þar af 50 ár í Vatnsfirði.
Hjalti þótti hafa hæfileika á ýmsum sviðum, hann var góður smiður og smíðaði t.d. sjálfur kirkjuna í Vatnsfirði en hann var einnig góður tréútskurðarmaður og til eru predikunarstólar og fleiri gripir eftir hann, þekktastur er hann þó e.t.v. fyrir myndlistahæfileika sína en hann er líklega einn allra fyrsti portrettmálari Íslands og meðal málverka sem hann málaði má nefna þekktar myndir af Hallgrími Péturssyni, Árna Magnússyni og Agli Skallagrímssyni. Hann þótti jafnframt hafa fallega rithönd og hann mun m.a. hafa ritað handrit sem nefnt hefur verið Kvæðabók Ólafs á Söndum, sem einnig hefur vægi í tónlistarsögu Íslands.














































