Hrafnar [1] (1965-66)

Hrafnar frá Laugarvatni

Veturinn 1965-66 var starfandi hljómsveit innan Menntaskólans á Laugarvatni undir nafninu Hrafnar, þar var á ferð hluti hljómsveitarinnar Mono system sem hafði starfað innan skólans veturinn á undan en með mannabreytingunum var ákveðið að skipta um nafn og taka upp Hrafna-nafnið.

Meðlimir Hrafna voru þeir Þorvaldur Örn Árnason bassaleikari, Páll V. Bjarnason orgelleikari, Jón Páll Þorbergsson trommuleikari, Jens Þórisson söngvari og gítarleikari og Atli Guðmundsson gítarleikari. Sveitin mun mestmegnis hafa leikið á skemmtunum og samkomum innan Menntaskólans á Laugarvatni en fór þó einnig austur að Skógum um vorið 1966 til að leika árshátíð Héraðsskólans á Skógum.