Hrafnaþing (2003-09)

Hljómsveit sem bar nafnið Hrafnaþing starfaði snemma á þessari öld, líklega á árunum 2003 til 2009 en þó ekki samfleytt. Sveitina skipuðu Friðrik Álfur Mánason (Svarti álfur) söngvari, Aðalbjörn Tryggvason trommuleikari (Sólstafir o.fl.), Stefán Jónsson bassaleikari (Saktmóðigur) og Steini Dýri [?] gítarleikari.

Hrafnaþing lék thrash metal og kom fyrst fram opinberlega á tónleikum ásamt fleiri rokksveitum í Iðnó vorið 2003, einnig lék sveitin síðar sama ár á tónleikum í Nýlistasafninu, í Hinu húsinu og víðar um borgina. Þeir félagar voru virkastir fyrstu tvö árin, 2003 og 2004 og léku þá töluvert á tónleikum en eftir það virðast þeir hafa komið fram einu sinni til tvisvar á ári til ársins 2006. Svo virðist sem Hrafnaþing hafi síðast komið fram sumarið 2009 en það var þá eftir þriggja ára hlé.

Sveitin sendi frá sér eina plötu sem kom út árið 2003, það var átta laga plata sem bar titilinn Líkið var dautt og hafði verið hljóðrituð í Stúdíó Helvíti en upplýsingar um hana eru af skornum skammti, hún hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Frekari upplýsingar óskast um þessa sveit.