
Hrefna Tynes
Hrefnu Tynes verður sjálfsagt fyrst og fremst minnst fyrir störf hennar í þágu skáta en hún var einnig texta- og lagahöfundur og reyndar liggja eftir hana tveir textar sem allir Íslendingar þekkja.
Hrefna Tynes (fædd Þuríður Hrefna Samúelsdóttir) var fædd í Súðavíkurhreppi fyrir vestan vorið 1912 en flutti með fjölskyldu sinni til Ísafjarðar ung að árum og svo til Siglufjarðar 16 ára þar sem hún bjó og starfaði um skeið. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum sem var norskur og hét Sverre Tynes, og tók hún upp nafn hans er þau giftu sig.
Þau hjónin fluttu til Noregs árið 1939 og bjuggu þar til 1946 en komu þá aftur til Íslands og bjuggu eftir það á höfuðborgarsvæðinu. Hrefna hafði verið öflug í skátastarfi fyrir norðan en einnig í Noregi og hélt svo uppteknum hætti eftir að heim var komið, hún var líkast til einn virkasti kvenskáti Íslands frá upphafi og starfaði alla tíð fyrir hreyfinguna. Hún hlaut fyrir það æðstu viðurkenningar skátahreyfingarinnar, var heiðursfélagi nokkurra skátafélaga og hlaut aukinheldur riddarakross fyrir framlag sitt. Hún sinnti jafnframt öðrum félagsstörfum, var m.a. í stjórn Kirkjukórasambands Reykjavíkurprófastsdæmis og Kirkjukórasambands Íslands, var formaður Kirkjukórs Nessóknar og formaður Kvenfélags Neskirkju, í stjórn Hjálparstofnunar kirkjunnar og þannig mætti áfram telja. Þá kom hún að dagskrárgerð fyrir börn bæði í útvarpi og sjónvarpi.
En Hrefna var einnig tónskáld og tónlistarkona, hún lék á gítar og söng og samdi bæði lög og texta tengt skátastarfinu en einnig texta við barnalög – tvö þeirra eru mjög þekkt og hafa komið út á ógrynni platna í gegnum tíðina, annars vegar Hjálpsamur jólasveinn (Í skóginum stóð kofi einn) og hins vegar Uppi á grænum en lögin hafa komið út með ólíku tónlistarfólki eins og Gylfa Ægissyni, Gunna & Felix, Megasi og Svanhildi Jakobsdóttur á hinum ýmsu jóla- og barnaplötum. Þess má geta að ekki hafa allir áttað sig á að tvö erindi eru við fyrrnefnda lagið en flestir syngja aðeins það fyrra.
Hrefna samdi einnig mikinn fjölda skátatexta og hér má nefna Tendraðu lítið skátaljós, Þú átt skáti að vaka og vinna og svo sálminn Ver mér nær, ó Guð, ver mér nær sem er kannski þekktara sem Kumbayah my lord, kumbayah. Einhver laga hennar hafa jafnframt komið út á plötum, s.s. með Varðeldakórnum. Hrefna samdi og gaf út söngbók fyrir ljósálfa og á áttræðis afmæli hennar árið 1992 kom út bók sem bar nafnið Tendraðu ljós, og hafði að geyma ljóð og sögur eftir hana.
Hrefna Tynes lést vorið 1994, á áttugasta og þriðja aldursári sínu.














































