Hrafnhildur Guðmundsdóttir (1955-)

Hrafnhildur Guðmundsdóttir

Hrafnhildur Guðmundsdóttir messósópran söngkona var töluvert áberandi í íslensku sönglífi um tíu ára skeið á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, og söng þá m.a. hlutverk í óperuuppfærslum, tónleikauppfærslum á stærri verkum og sem einsöngvari víða á tónleikum. Söng hennar má jafnframt heyra á einni plötu.

Hrafnhildur Eyfells Guðmundsdóttir (fædd 1955) kemur upphaflega af Suðurnesjunum og hóf tónlistarnám sitt í Keflavík, hún lærði fyrst á píanó og fiðlu en hóf svo söngnám við Tónlistarskólann í Kópavogi hjá Elísabetu Erlingsdóttur og svo við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Rut Magnússon. Hún lauk tónmenntakennaraprófi og burtfararprófi í söng frá skólanum vorið 1985 og tveimur árum síðar einsöngvaraprófi við sama skóla hjá Sieglinde Kahmann. Hún sótti jafnframt í framhaldinu einkatíma hjá Sigurði Demetz og var um tíma í framhaldsnámi í óperusöng í Austurríki.

Fyrsta opinbera söngverkefni Hrafnhildar var að syngja við vígslu nýs orgels í Útskálakirkju en hún var dóttir prestshjónanna þar, í kjölfarið fylgdu nokkur skipti sem hún söng einsöng á tónleikum næstu mánuðina sem og einsöngur á plötu Kirkjukórs Keflavíkur árið 1988.

Það var svo árið 1989 að stærri verkefni komu til sögunnar, fyrsta óperuhlutverk Hrafnhildar var í Brúðkaupi Fígarós í Íslensku óperunni og á næstu árum eftir það átti hún eftir að syngja í nokkur skipti í óperusýningum og tónleikauppfærslum á óperum eins og í Dido (Langholtskirkju 1990), kirkjuóperunni Abraham og Ísak (Háteigskirkju 1990) og Töfraflautunni (Íslensku óperunni 1991). Þá söng hún einsöng ásamt fleiri söngvurum og Mótettukórnum með 30 manna hljómsveit í óratoríunni Saul (e. Handel) í Hallgrímskirkju og Skálholtskirkju sumarið 1994.

Hrafnhildur Guðmundsdóttir

Hrafnhildur hélt sína fyrstu sjálfstæðu einsöngstónleika í Gerðubergi árið 1989 en þar söng hún íslensk og erlend sönglög frá 20. öldinni við undirleik Jónasar Ingimundarsonar en áður hafði hún sungið nokkuð á ljóðatónleikum á sama stað – fjórar plötur sem höfðu að geyma söng frá slíkum ljóðatónleikum í Gerðubergi komu út á árunum 1990-94 og á einni þeirra, Á Ljóðatónleikum Gerðubergs III (1993) syngur Hrafnhildur sjö lög við undirleik Jónasar.

Hrafnhildur söng jafnframt einsöng á fjölmörgum tónleikum og tónlistarhátíðum, hér má nefna Sumartónleika í Skálholtskirkju (1990), Háskólatónleika (1990), einsöng með Íslensku hljómsveitinni á Listahátíð í Reykjavík (1991), Kirkjulistahátíð (1995) og tónleika í Kristskirkju ásamt fleiri einsöngvurum og Chalumeaux tríóinu svo fáein dæmi séu tekin. Þá starfaði hún um tíma töluvert með píanóleikaranum Guðrúnu St. Sigurðardóttur í kringum tónleikahald sitt.

Hrafnhildur hætti að koma fram sem einsöngvari upp úr miðjum tíunda áratugnum og hefur líklega lítið sinnt sönglistinni síðustu árin.

Efni á plötum