
Hress/Fresh
Hljómsveitin Hress/Fresh starfaði í nokkur ár snemma á þessari öld og lék fönkskotna tónlist.
Fyrstu heimildir um sveitina eru frá því um haustið 2005 en af og til heyrðist til sveitarinnar árið eftir, þá lék hún tvívegis á tónleikum í Hinu húsinu ásamt fleiri sveitum. Það var svo vorið 2007 sem Hress/Fresh birtist í Músíktilraunum en sveitina skipuðu þá þeir Gunnar Leó Pálsson trommuleikari, Elvar Örn Viktorsson gítarleikari, Haraldur Gunnar Guðmundsson bassaleikari og Ingi Bjarni Skúlason hljómborðsleikari en sveitin var instrumental sveit. Þrátt fyrir að þeir félagar kæmust ekki í úrslit Músíktilraunanna var Elvar Örn kjörinn besti gítarleikari tilraunanna.
Sveitin starfaði áfram um tíma, lék m.a. á Arnarhóli á 17. júní og birtust á einum tónleikum til í Hinu húsinu snemma árs 2008 en svo virðist sem hún hafi hætt störfum fljótlega eftir það.














































