Blúsvinir Díönu (2017-2023)

Blúsvinir Díönu

Hljómsveitin Blúsvinir Díönu starfaði um nokkurra ára skeið á árunum í kringum 2020 og lék þá nokkuð opinberlega en sveitin var eins og nafnið gefur til kynna blúshljómsveit.

Elstu heimildir um Blúsvini Díönu eru frá haustinu 2017 þegar sveitin lék á Loftinu í Bankastræti en hún gæti þá hafa verið starfandi um nokkurt skeið á undan. Sveitina skipuðu þau Diana Von Ancken söngkona, Þorvaldur Daði Halldórsson gítarleikari, Gautur Þorsteinsson hljómborðsleikari, Steingrímur Bergmann Gunnarsson trommuleikari og Einar Ingi Ágústsson söngvari og bassaleikari, en þegar Einar Ingi hætti snemma árs 2023 gekk nýr bassaleikari til liðs við sveitina og eftir það gekk hún undir nafninu Emajor.