
Hreggviður Jónsson
Hreggviður Jónsson harmonikkuleikari var kunnur fyrir hljóðfæraleik austur á Fjörðum og Héraði en hann samdi einnig tónlist og var í forsvari fyrir félagsstarf harmonikkuleikara fyrir austan.
Hreggviður Muninn Jónsson fæddist snemma árs 1941 en hann var frá Torfastöðum í Jökulsárhlíð á Héraði. Hann var yngstur sex bræðra sem flestir eða allir léku á hljóðfæri og léku fyrir dansi í sveitinni ýmist einir eða í félagi við hverja aðra og fleiri – líklega var Hreggviður þó minna í samstarfi við bræður sína þar sem hann var langyngstur þeirra en þekktastur þeirra bræðra var Þorvaldur sem var þekktur harmonikkuleikari.
Hreggviður varð búfræðingur frá Hólum í Hjaltadal og bjó eftir nám fyrst um sinn á Norðfirði en svo í Reykjavík á árunum 1967 til 1976 þegar hann flutti aftur austur – til Seyðisfjarðar. Á Seyðisfirði var hann einn af stofnendum harmonikkufélagsins Viktoríu árið 1979 og fyrsti formaður þess, og þegar hann flutti í Fellabæ árið 1983 átti hann líka þátt í stofnun Félags harmonikuunnenda á Fljótsdalshéraði (síðar Harmoníkufélags Héraðsbúa) 1984 og gegndi þar einnig formennsku. Starfsemin var þar strax öflug undir stjórn Hreggvið og er það reyndar enn starfandi. Meðan hann bjó í Fellabæ söng hann með Karlakór Fljótsdalshéraðs og líklega fleiri kórum (einnig á Seyðisfirði) en harmonikkuleikarinn var alltaf númer eitt og hann lék á ýmsum skemmtunum á Héraði einn og í félagi við aðra innan og utan félagsstarfs harmonikkufélagsins. Hreggviður starfrækti einnig harmonikkuhljómsveit í eigin nafni um nokkurra ára skeið á níunda áratugnum og hann var eitthvað viðloðandi hljómsveitina Nefndina um tíma en ekki er víst að hann hafi verið meðlimur þeirrar sveitar frekar en Danshljómsveitar Friðjóns Jóhannssonar en hann lék inn á plötu með þeirri sveit – Austfirskir staksteinar (1996).
Hreggviður samdi nokkuð af tónlist sjálfur og nokkur laga hans komu út á plötum, hann tók þátt í lagakeppni Harmoníkufélags Héraðsbúa og afmælislagakeppni sem haldin var í tilefni af stórafmælis Egilsstaða og komu einhver þeirra laga út á plötum, eitt laga hans er t.a.m. að finna á plötu hljómsveitarinnar XD3 sem gerði lögum úr afmælislagakeppninni skil.
Um eða upp úr aldamótum flutti Hreggviður til höfuðborgarsvæðisins og árið 2003 kom út plata í nafni Þorvaldar Jónssonar bróður Hreggviðs og hans sjálfs undir titlinum Á fjöllum: 13 frumsamin lög eftir Hreggvið og Þorvald frá Torfastöðum en Hreggviður samdi meiri hluta laganna og syngur jafnframt á plötunni ásamt fleirum.
Hreggviður lést í byrjuns árs 2011 en hann átti þá aðeins fáeinar vikur í sjötugs afmæli sitt.














































