
Hrókur alls fagnaðar – Sighvatur Sveinsson
Hrókur alls fagnaðar var heiti eins manns hljómsveitar Sighvats Sveinssonar sem hann starfrækti allt frá því um 1990 og fram yfir miðjan annan áratug 21. aldarinnar. Sighvatur var þar iðulega vopnaður gítar, hljómborðsskemmtara og harmonikku.
Sighvatur hafði einmitt starfrækt tríó frá því á áttunda áratugnum sem gekk undir nafninu Hrókar alls fagnaðar en gekk í daglegu tali undir nafninu Hrókar, það lá því beinast við að setja það nafn í eintölu en hljómsveitin Hrókar starfaði reyndar allt til 1994.
Hrókur alls fagnaðar kom mestmegnis fram í einkasamkvæmum en ekki á pöbbum eða almennum dansleikjum, m.a. fór hann vestur til Minneapolis í Bandaríkjunum og skemmti þar á þorrablóti Íslendingafélagsins. Í seinni tíð skemmti Sighvatur einkum fyrir eldri borgara en hann starfaði þá á hjúkrunarheimilinu Eir og létti vistfólki þar lundina með hljóðfæraleik og söng, allt til 2016.














































