
Hryntríóið
Þjóðlagasveit starfaði um tveggja ára skeið við lok sjöunda áratugar síðustu aldar undir nafninu Hryntríóið eða Hryntríó.
Tríóið var skipað ungu tónlistarfólki sem síðar átti eftir að verða þekkt á tónlistarsviðinu en það voru þau Jón Stefánsson síðar kórstjóri og organisti, Ólöf Kolbrún Harðarsdóttir síðar óperusöngkona (og eiginkona Jóns) og Helgi E. Kristjánsson en hann átti eftir að koma víða við í tónlistinni. Þeir Jón og Helgi léku á gítara og öll þrjú sungu þau.
Hryntríóið kom fyrst fram haustið 1967 og á næstu tveimur árum tróðu þau reglulega upp, oftast á þjóðlagakvöldum og -tónleikum en einnig á annars konar uppákomum eins og árshátíðum. Uppistaðan í lagaprógrammi tríósins var íslensk og erlend þjóðlög með íslenskum textum.
Þremenningarnir störfuðu saman undir þessu nafni fram á haustið 1969 en þegar þau höfðu hætt störfum hóf Helgi að starfa með öðru þjóðlagatríói – Þremur á palli en Jón og Ólöf Kolbrún hófu að feta klassísku brautina.














































