Hreinn Steingrímsson (1930-98)

Hreinn Steingrímsson

Hreinn Steingrímsson var það sem kallað hefur verið tónvísindamaður en hann helgaði sig rannsóknum á íslenskum rímnakveðskap og þjóðlögum og eftir hann liggur rit byggt á doktorsritgerð hans.

Hreinn Steingrímsson var fæddur á Hólum í Hjaltadal haustið 1930 en lítið liggur fyrir um tónlistaruppeldi hans á yngri árum eða hvað olli því að hann sneri sér að rannsóknum á tónlist. Eftir stúdentspróf lá leið hans í tónlistarnám í París og Vín og dvaldi hann um átta ára skeið (á árunum 1951-58), einkum í Austurríki við nám í flautuleik og öðrum tónmenntum. Hann starfaði reyndar aldrei við tónlistarflutning að námi loknu og engar heimildir finnast um að hann hafi leikið á tónleikum eða tónlistartengdum uppákomum – hann kenndi hins vegar við Barnamúsíkskólann um hríð snemma á sjöunda áratugnum. Einnig mun Hreinn hafa samið einhverja tónlist, sem var að einhverju leyti undir áhrifum frá íslenskum rímnalögum en engar þeirra tónsmíða virðast hafa verið gefnar út á plötu- eða nótnaformi.

Hreinn starfaði um skeið hjá Landsbankanum og einnig við þýðingar m.a. á myndlistarbókum en árið 1966 hætti hann störfum við bankann til að helga sig rannsóknum á íslenskum þjóðlögum, einkum á rímnakveðskap og íslenska tvísöngnum og gerðist því fræðimaður. Hann vann að ýmsum rannsóknum á eðli rímna, m.a. ásamt Hallfreði Erni Eiríkssyni og ritaði fjölmargar greinar um efnið einnig sem birtust m.a. í íslenskum og erlendum fagtímaritum og einnig hélt hann fyrirlestra hér á landi og erlendis, þá vann hann einnig um tíma við að skrásetja þjóðlög.

Hreinn vann lengi að doktors-ritgerð um breiðfirskan rímnakveðskap en þegar dómnefnd á vegum Háskóla Íslands hafnaði henni árið 1981 varð það honum mikið áfall og hætti hann um tíma öllum rannsóknum á efninu eftir það. Hreinn sneri sér aftur að doktors-ritinu síðar en entist ekki aldur til að klára það því hann lést eftir erfið veikindi snemma árs 1998.

Tveimur árum eftir andlát hans kom bókin Kvæðaskapur: Icelandic Epic út á vegum Máls og myndar, sem byggði á doktors-ritgerðinni en henni fylgdi einnig geisladiskur með upptökum á rímum frá árunum 1958 til 1974, flestar gerðar á vegum Þjóðminjasafnsins. Engar frekari upplýsingar er að finna um þær upptökur.

Efni á plötum