
Hugarástand – Dj. Arnar & Dj. Frímann
Hugarástand var dj-dúó plötusnúðanna Dj. Frímanns og Dj. Arnars en þeir félagar hafa starfað saman sem slíkir síðan á síðustu öld.
Samstarf þeirra Frímanns Andréssonar (Dj. Frímann) og Arnars Símonarsonar (Dj. Arnars) hófst með þætti á útvarpsstöðinni Skratz FM 94,3 haustið 1998 sem bar nafnið Hugarástand, þar sem þeir spiluðu danstónlist en þegar Skratz lagði upp laupana færðu þeir sig yfir á X-ið og voru þar um tíma. Þeir félagar voru þá engir nýgræðingar heldur höfðu þeir fengist við plötusnúðamennsku um nokkurt skeið sitt í hvoru lagi.
Fljótlega fæddust hin svokölluðu Hugarástandskvöld á Café Thomsen við Hafnarstræti, þar sem tvímenningarnir reyndu að vekja upp eins konar klúbbastemmingu, þessi kvöld nutu mikilla vinsælda en eftir að Café Thomsen lokaði færðust Hugarástandskvöldin á hina ýmsu danstónlistar- og skemmtistaði borgarinnar, hér má nefna staði eins og Flauel við Grensásveg (sem þeir ráku sjálfir), Kapital, Nasa, Tunglið, Jacobsen, Factory, Volta, Park og Paloma allt fram til 2016, stundum með hléum. Í eitt skipti að minnsta kosti var geisladisk með efni frá þeim Hugarástands-félögum dreift í nokkur hundruð eintökum en engar frekari upplýsingar er að finna um þá útgáfu.
Eftir 2016 varð langt hlé á Hugarástandskvöldum allt til haustsins 2024 þegar stemmingin var endurvakin á Radar við Tryggvagötu. Þeir Arnar og Frímann eru því enn starfandi undir þessu nafni þótt lengra sé á milli viðburða í nafni Hugarástands.














































