Hrím [3] (1981-85)

Hrím

Þjóðlagahljómsveitin Hrím starfaði um nokkurra ára skeið á níunda áratugnum og sendi frá sér bæði plötu og kassettu, sveitin lék töluvert á erlendum vettvangi.

Hrím var stofnuð haustið 1981 og var reyndar fyrst um sinn auglýst sem söngflokkur og starfaði e.t.v. sem slíkur framan af. Hópurinn taldi í upphafi fimm meðlimi en það voru þau Einar Þór Lárusson, Matthías Kristiansen, Wilma Young, Hilmar J. Hauksson og Sigurður Ingi Ásgeirsson. Þau komu í fyrsta sinn fram opinberlega á fullveldishátíð stúdenta við Háskóla Íslands þann 1. desember í Háskólabíói og fljótlega einnig á samkomu æskulýðsnefndar þar sem flokkurinn söng baráttusöngva vinstri manna. Þrátt fyrir að Hrím hafi þarna verið auglýst sem sönghópur léku þau klárlega einnig á hljóðfæri, þannig lék Wilma á fiðlu og Matthías og Hilmar á gítara – sá síðarnefndi lék reyndar einnig á fjölda annarra hljóðfæra, auk þess sem Sigurður lék á bassa.

Eftir áramótin héldu þau samstarfinu áfram og lék víða í kjölfarið, á tónleikum á Hótel Borg og í Norræna húsinu en tónlist sveitarinnar var þjóðlagaskotin blanda af frumsömdu efni, írsku og skosku. Sveitin hélt svo einnig tónleika á Akranesi en Wilma var þá tónlistarkennari þar, segja má að vinstri slagsíða hafi verið á þessari sveit því hún lék einnig á samkomum Félags herstöðvaandstæðinga auk fyrrnefndra uppákoma.

Hrím 1983

Hrím hafði fremur hægt um sig framan af sumrinu 1982 en um mitt sumar hélt sveitin til Grænlands þar sem hún lék á samkomu tengdri norrænu samstarfi og þar var m.a. viðstatt danskt kóngafólk og forseti Íslands, um haustið lék sveitin svo á vísnahátíðum í Noregi og Svíþjóð ásamt Bergþóru Árnadóttur auk þess að leika fyrir Íslendingafélög. Þar sem Hrím var í grunninn þjóðlagasveit var við hæfi að hún kæmi einnig fram á Vísnakvöldum Vísnavina og það átti hún eftir að gera í nokkur skipti en samkomur í Norræna húsinu og reyndar hinir fjölbreytilegustu tónlistarviðburðir urðu á vegi sveitarinnar – í því samhengi má nefna að sveitin lék sumarið 1983 um borð í MS Eddu á leið til Skotlands og lék svo á þjóðlagahátíð í Glasgow í kjölfarið en hin skosk-hjaltlandseyskættaða Wilma kom þeim samböndum á. Þá lék sveitin einnig í Kaupmannahöfn sama sumar.

Um haustið hafði fækkað í sveitinni, Sigurður Ingi og Einar Þór voru þá hættir en Wilma, Matthías og Hilmar störfuðu áfram sem tríó. Um svipað leyti sendi sveitin frá sér kassettu sem bar nafnið Barnagull: Lög og leikir með Hrím en á henni var að finna sextán barnalög úr ýmsum áttum – hún hlaut góða dóma í Æskunni. Kassettuna gaf sveitin út sjálf en hún hafði verið hljóðrituð af Rafni Sigurbjörnssyni í Stúdíó Hlust.

Hrím

Þrátt fyrir að fækkað hefði í sveitinni starfaði hún áfram með svipuðum hætti og lék víða á tónleikum og öðrum tónlistartengdum skemmtunum innanlands og utan, hér má nefna tónleika á Sólheimum í Grímsnesi, á Hótel Borg og Norræna húsinu, Djúpinu og Gerðubergi en einnig fór tríóið að gera í auknum mæli út á árshátíða- og þorrablótabransann, og spilaði jafnvel á villibráðakvöldum. Þá fór sveitin sumarið 1984 og lék á þjóðlagahátíðum víða í Evrópu, s.s. í Finnlandi, Danmörku og Skotlandi en í síðast talda landinu mun sveitin hafa leikið fjórtán sinnum á einni viku á Glasgow folk music festival, einnig mun sveitin hafa leikið á útvarpsstöðvum erlendis í þeim ferðalögum.

Hrím sendi frá sér plötu um haustið 1984 og bar hún titilinn Möndlur, skífan sem gefin var út af Gramminu hafði að geyma sexán lög – blöndu frumsaminna laga og þjóðlaga en hún var hljóðrituð í Stúdíó Mjöt. Sveitin fylgdi útgáfu plötunnar eftir með spilamennsku og starfaði áfram út veturinn 1984-85 en um vorið 1985 hætti hún störfum, þá höfðu þau verið húsband á Ölkeldunni um tíma. Þau Matthías og Wilma störfuðu áfram undir nafninu Wilma og Matti, og líka um skeið ásamt Grétari Magnúsi Guðmundssyni (Meistara Tarnúsi) undir nafninu GMW en það er önnur saga.

Efni á plötum