Hrif serían [safnplöturöð] (1974-75)

Það er á mörkum þess að hægt sé að skilgreina safnplöturöðina Hrif sem safnplötuseríu enda komu aðeins tvær plötur undir þeim titli, plöturnar eru hins vegar með fyrstu safnplötunum hér á landi og þær allra fyrstu sem höfðu að geyma fleiri en eina plötu.

Það var Ámundi Ámundason  hjá ÁÁ-records sem var maðurinn á bak við Hrif plöturnar en fyrri platan kom út fyrir jólin 1974 og bar einfaldlega nafnið Hrif. Á þeirri plötu var að finna sex íslenska flytjendur og voru Mánar og BG og Ingibjörg þekktastir þeirra, og reyndar náðu lög þeirra sveita ágætum vinsældum – Mánar með lagið Á kránni og BG og Ingibjörg með lögin Góða ferð og Hæ Gudda gættu þín. Platan seldist mjög vel en hlaut ekki góða dóma þar sem hún þótti ekki hljóma vel en öll lög plötunnar, ellefu talsins höfðu verið hljóðrituð í nýlegu hljóðveri Hjartar Blöndal, HB studio.

Áætlað var að síðari platan, Hrif 2 kæmi út á vormánuðum 1975 en tafir urðu á útgáfu hennar svo hún kom ekki á markaðinn fyrr en fáeinum dögum fyrir jól. Þar hafði Jakob F. Magnússon spilað stórt hlutverk í upptökustjórn og er hér sérstaklega framlag Spilverk þjóðanna nefnt en sveitin átti fjögur af þeim tólf lögum sem voru á plötunni, það voru fyrstu upptökurnar sem gerðar voru með sveitinni en lögin voru tekin upp í sömu upptökutörn og Stuðmannaplatan Sumar á Sýrlandi – í Bretlandi, og léku Jakob og Tómas M. Tómasson bassaleikari með þeim í upptökunum. Fyrir vikið þykir nokkur Stuðmannahljómur í lögum sveitarinnar en aðrir flytjendur á plötunni voru Bergþóra Árnadóttir sem þarna kom fyrst fram á plötu, Hvítárbakkatríóið (hljómsveit Jakobs), Pónik og Nunnurnar.

Fleiri plötur komu ekki út í þessari safnplötuseríu en þær þykja nokkuð merkilegar í tónlistarsögulegu samhengi.

Efni á plötum