Hróbjartur Jónatansson (1958-)

Hróbjartur Jónatansson

Hróbjartur Jónatansson er fyrst og fremst þekktur fyrir lögfræðistörf sín en hann hefur einnig samið tónlist og gefið út plötu í eigin nafni.

Hróbjartur er fæddur 1958 og mun eitthvað hafa numið píanóleik á yngri árum auk þess að leika lítillega á gítar. Hann vann um nokkurra ára skeið sem dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu um og upp úr tvítugt en nam svo lögfræði og helgaði sig þeim störfum.

Hróbjartur var kominn á miðjan aldur þegar hann ákvað að læra meira á píanó og kynntist þá Pétri Hjaltested og fékk hann til liðs við sig þegar hann hafði samið nokkuð af lögum, til að aðstoða sig við plötugerð. Niðurstaðan var níu laga plata sem kom út um það leyti sem hann varð sextugur árið 2018, og hlaut hún titilinn Gríptu daginn – platan var tileinkuð minningu móður Hróbjartar sem látist hafði úr krabbameini og rann allur ágóði af sölu plötunnar til Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem fengið hefur krabbamein.

Á plötunni naut Hróbjartur aðstoðar söngvaranna Pálma Gunnarssonar, Páls Rósinkranz og Jóhanns Sigurðarsonar auk þess að syngja sjálfur en auk áðurnefnds Péturs Hjaltested komu við sögu tónlistarfólk eins og Ásgeir Óskarsson, Tryggvi J. Hübner, Unnur Birna Björnsdóttir, Sigurgeir Sigmundsson og Haraldur Þorsteinsson svo nokkur nöfn séu nefnd.

Efni á plötum