Human body percussion ensemble (1991)

Human body percussion ensemble var svokallað búksláttartríó sem starfaði í fáeinar vikur haustið 1991 í tengslum við Íslandskynningu sem haldin var í London, og vakti reyndar feikimikla athygli – ekki voru þá allir Íslendingar jafn hrifnir af framlagi hennar.

Tildrög þess að sveitin var sett á laggirnar voru þau að Jakob Frímann Magnússon sem þá gegndi stöðu menningarfulltrúa í London hélt utan um Íslandskynninguna Fire and Ice sem haldin var í byrjun desember 1999 þar sem tilefnið var að 1000 ár voru liðin frá því að Leifur Eiríksson hafði fundið Ameríku. Þegar hann var að sannfæra þarlendan upplýsingafulltrúa blaðamannastéttarinnar um ágæti íslensku tónlistaratriðanna við heldur litlar undirtektir flaug honum nafnið Human body percussion ensemble og búksláttur í hug þegar sá breski gerði sig líklegan til að ljúka samtalinu – það kveikti áhugann hjá fulltrúanum og Jakob sauð saman einhverja sögu um að slíkur búksláttur hefði tíðkast um aldir á Íslandi og menn hefðu iðkað þessa list á köldum vetrarkvöldum, þessi sena Jakobs og upplýsingafulltrúans gæti best hafa átt heima í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu en Bretinn beit á agnið og fyrr en varði hafði sveitin verið pöntuð í fjölmörg útvarpsviðtöl löngu áður en búið var að manna sveitina og hvað þá að ákveða hvernig ætti að framkvæma þann búkslátt sem Jakob lýsti svo fjálglega.

Nánast enginn tími var til stefnu og í kjölfarið kallaði Jakob saman Sverri Guðjónsson kontratenórsöngvara sem þá bjó í London, Sigurð Rúnar Jónsson (Didda fiðlu) sem þá einmitt var á leiðinni til að leika á Íslandskynningunni og Ragnhildi Gísladóttur (Röggu Gísla) þáverandi eiginkonu sína í verkefnið og þau þrjú gerðu sitt besta til að framkalla þau hljóð með búkslætti og röddum sem Jakob hafði lýst í samtalinu, og völdu ýmis þjóðlög til að vinna úr í því skyni. Þau voru reyndar ekki sammála um hvernig ætti að framreiða tónlistina og kvöldið fyrir fyrsta útvarpsviðtalið sprakk allt í loft upp hjá þeim, en morguninn eftir höfðu þau náð að settla málin og Diddi skrifaði út útsetningar fyrir tónlistina sem þau æfðu svo í leigubílnum á leið í viðtalið. Það tókst framar vonum, þremenningarnir hljómuðu eins og þaulæft búksláttartríó og í framhaldinu fóru þau í fleiri slík viðtöl og svo í frægan sjónvarpsþátt (Jonathan Ross Show á ITV) og vöktu mikla athygli – þess má geta að þau fluttu alltaf ný og ný lög í hverju viðtali. Tiltækið heppnaðist því prýðilega og sveitinni var m.a. boðinn plötusamningur. Human body percussion ensemble hlaut þannig mikla athygli fjölmiðla og áhorfenda en aðallega hneykslan Íslendinga þegar fréttirnar bárust hingað til lands, enda hafa Íslendingar aldrei stundað slíkan búkslátt á köldum vetrum. Sagan segir reyndar að einhverjir breskir blaðamenn hefðu áttað sig á að verið væri að hafa þá að fíflum, og móðgast mjög.

Ekki varð framhald af samstarfinu og eftir að Íslandskynningunni lauk fór hver til síns heima, og Íslendingar jöfnuðu sig smám saman. Ragnhildur og Jakob stofnuðu árið 1998 Human body orchestra sem byggð var á sömu hugmynd – að vinna með búkslátt og raddir en nýttu þá tölvutæknina sem var þá mun lengra á veg komin, og gáfu út plötu undir því nafni með frumsaminni tónlist.