
The Human seeds
Hljómsveitin The Human seeds var eins konar flipp eða hliðarverkefni innan Sykurmolanna en sveitin kom líklega tvívegis fram opinberlega, annars vegar í Bandaríkjunum þar sem Sykurmolarnir voru á tónleikaferðalagi sumarið 1991 og svo á Smekkleysukvöldi á Hótel Borg um haustið.
Meðlimir The Human seeds voru þeir Sigtryggur Baldursson bassaleikari og söngvari, Bragi Ólafsson trommuleikari og rithöfundurinn Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) hljómborðsleikari. Sveitin hljóðritaði tvö lög, Valhalla og Vaselin og kom fyrrnefnda lagið út á safnsnældunni Snarl 3 haustið 1991 en á þeim upptökum er Þór Eldon einnig með þeim félögum. Þá bregður The Human seeds einnig fyrir á myndbandsspólunni Á guðs vegum sem kom út á vegum Sykurmolanna og Smekkleysu, árið 1992.














































