Hanna litla
(Lag / texti: Þorsteinn Guðmundsson / Tómas Guðmundsson)
Hanna litla! Hanna litla!
Heyrirðu ekki vorið kalla?
Sérðu ekki sólskinshafið
silfurtært um bæinn falla?
Það er líkt og ljúfur söngur
líði enn um hjarta mitt,
ljúfur söngur æsku og ástar,
er ég heyri nafnið þitt.
Svona er að vera seytján ára
sólskinsbarn með draum í augum,
ljúfan seið í léttu brosi,
leynda þrá í ungum taugum.
Hanna litla! Hanna litla!
Herskarar af ungum mönnum
ganga sérhvern dag í draumi,
dreyma þig í prófsins önnum.
Og þeir koma og yrkja til þín
ódauðlegu kvæðin sín.
Taka nútt í fimm, sex fögum
og falla – af tómri ást til þín.
Svona er að vera seytján ára
sólskinsbarn með draum í augum,
ljúfan seið í léttu brosi,
leynda þrá í ungum taugum.
Hanna litla! Ég veit að vorsins
vináttu þú aldrei missir.
Og þú verður alla tíma
ung og – saklaus þótt þú kyssir.
Gríptu dagsins dýran bikar.
Drekktu örugg lífsins vín.
Nóttin bíður björt og fögur.
Borgin ljómar, sólin skín.
Svona er að vera seytján ára
sólskinsbarn með draum í augum,
ljúfan seið í léttu brosi,
leynda þrá í ungum taugum.
[m.a. á plötunni Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar – Grásleppu Gvendur]














































