Myndin af þér

Myndin af þér
(Lag / texti: erlent lag / Iðunn Steinsdóttir)

Ég mynd þína alltaf á mér ber,
þá einu sem ég tók af þér,
er ung varst þú.
Þú virðist feimin hljóð og hýr
og hlýjan sem í augum býr,
mér yljar nú.

Hver dagur lífs míns langur er,
en loksins þegar kvölda fer
ég kem hér inn.
Og hver einn smæsti hlutur hér
er helgidómur sem með þér,
ég keypti eitt sinn.

Þinn andi býr í öllu hér
og um þig talar hlutur hver
sitt þögla mál.
Blái stóllinn bekknum hjá
og blómið gluggasyllunni á
og brotin skál.

Ég man þú eitt sinn misstir pott
og marðir tána, þá var gott
að ég var hér.
Ég tárin þerraði og tána strauk
og treganum um síðir lauk
í fanginu á mér.

Sú mynd við mér brosir,
þó burtu sért þú.
Ó, svo björt er þín minning:
Hún lýsir mér nú.

Hér úti í garði er gömul eik
sem greinum lyftir bein og keik
mót ljósi og yl.
Við oft á daginn dvöldum þar
og djúp og heit sú gleðin var
að vera til.

Já, lífið allt var ævintýr
og alltaf rann hver dagur nýr,
með ást og trú.
Þú varst svo ung og yndisleg
og enginn maður sælli en ég.
Það sé ég nú.

Þín mynd við mér brosir
þó burtu sért þú.
Ó, svo björt er þín minning.
Hún lýsir mér nú.

En líkt og gæfan gjöful er
svo getur lánið brugðist þér
og umbreyst oft.
Að sumri okkar samleið þraut
og sólin skein er hvarfstu á braut,
en samt er kalt.

Svo þokast áfram árin löng,
en alltaf man ég gamlan söng
um ást og trú.
Ég man að eitt sinn var hér vor
í votu grasi lágu spor,
sem sjást ei nú.
Ég mynd þína alltaf á mér ber,
þá einu sem ég tók af þér
er ung varst þú.

[m.a. á plötunni Vilhjálmur Vilhjálmsson – Dans gleðinnar]