Niðavellir – Hér sofa dvergar

Niðavellir – Hér sofa dvergar
(Lag / texti: Skálmöld / Snæbjörn Ragnarsson)

Niðavellir, náhvítur máninn skín.
Dvergahellir, dulúð þér villir sýn.
Sindradætur, synir og börnin öll,
vetrarnætur, verma þau klettafjöll.

Aðrir byggja hús og hallir, kastala og kofa.
Komið inn í hellinn því að hér, hér er gott að sofa.

Galdrastafir, grafnir í stóran stein,
dvergagrafir, dysjar og gömul bein.
Heljarstyrkur, hertekur djúpan dal.
Niðamyrkur, nær inn í gullinn sal.

Leggist niður börnin mín, já stór er okkar stofa.
Steingólfið er tandurhreint og hér, hér er gott að sofa.

Trónir á mergi tinnugler,
tindar úr bergi háir.
Sindri og Hergill halla sér,
hér sofa dvergar gráir.

Heyr, mín kæra hefðarfrú,
hér er gott að sofa.
Á sig taka náðir nú,
niðahjón og börnin þrjú.

Þegar heyrist þrumugnýr,
Þór við skulum lofa.
Okkur geymir hellir hlýr,
hér er gott að sofa.

Náinn syngur næturljóð,
núna sefur dvergaþjóð.

[af plötunni Skálmöld – Vögguvísur Yggdrasils]